Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Græða eða tapa á hávaðasömum heimagreftri

03.02.2018 - 10:03
Mynd: Leonardo Rizzi / Flickr
Ísland er talið gósenland fyrir gagnaver og slík starfsemi hefur verið í miklum vexti undanfarið, einkum á Ásbrú. Þau hýsa ofurtölvur og upplýsingar en þjónusta líka fyrirtæki sem grafa eftir rafeyri á borð við Bitcoin, Ethereum og Zcash. Sumir hafa hagnast verulega á að grafa rafeyri í bílskúrnum heima hjá sér. Skatturinn klórar sér í hausnum og stjórnvöld bíða eftir ESB.

„Tugir fyrirtækja vinna rafeyri hér í dag. Nú get ég bara talað fyrir þá sem eru hjá okkur, við sjáum um hýsingu fyrir fyrirtæki sem eru meðal stærstu og flottustu fyrirtækja í Blockchain í heimi,“

segir Gísli Kr. Katrínarson, sérfræðingur hjá Advania Datacenters.

Gamalt skjákort.
 Mynd: Peter Huys - Freeimages

Spegillinn fjallaði í vikunni ítarlega um rafeyrisgröft.

Í stuttu máli þá reiða öll rafeyriskerfi sem gera fólki kleift að eiga í milliliðalausum viðskiptum á netinu, sig á dreift net tölva með mikla reiknigetu. Tölvurnar viðhalda kerfinu og fá fyrir það greitt. Í Bitcoin-kerfinu fær ein tölva, sú sem er fyrst til að leysa ákveðna þraut, verðlaun á tíu mínútna fresti, 12,5 bitcoin sem nú samsvara um 11 milljónum króna. Þetta er lotterí en getur borgað sig ef raforkan er ódýr og búnaðurinn góður. Gagnaverin standa ekki í námagreftri, þau þjónusta fyrirtæki sem gera það. Hér eru stórar námur, til dæmis Bitfury sem Advania hýsir á Ásbrú. Það má líka nefna Genesis Mining, þar er grafið fyrir Bitcoin en líka fyrir öðrum og vanþróaðri myntum því það er auðveldara. Eftir því sem myntir þróast verður sífellt erfiðara að grafa þær og Bitcoin er sú elsta. Genesis Mining býður fólki upp á svokallaða skýjavinnslu, það getur greitt fyrir afnot af búnaði gagnaversins og valið hvaða myntir það vill nýta reiknigetu búnaðarins til að grafa. 

Ísland best í heimi

Alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki á sviði fasteignaviðskipta, Cushman and Wakefield, gaf árið 2016 út lista yfir þau ríki þar sem það taldi best að hýsa gagnaver, Ísland var í efsta sæti. Margt kemur til; tiltölulega lágt raforkuverð og hagstætt viðskiptaumhverfi þar á meðal. Rafeyrisnámurnar þurfa mikla kælingu og þar koma vindurinn og kuldinn að góðum notum, víða annars staðar þarf að nota rafmagnskælingu. Gagnaver hér hýsa þó ekki bara rafeyrisnámur. „Það er verið að byggja fullt af húsum hjá okkur, aðalvöxturinn hjá okkur hefur verið í kringum ofurtölvurnar, ég tala ekki fyrir aðra í geiranum en þar hefur okkar fókus og vöxtur legið,“ segir Gísli.  Ísland sé frekar að verða ofurtölvuþjóð en rafeyrisnámuþjóð. Þá sé hægt að hýsa rafeyrisnámur og ofurtölvur í sams konar gagnaverum og nota sams konar búnað til að kæla þær. Það komi sér vel. Þá segir hann litla hættu á því að  hús, sem nú eru nýtt undir rafeyrisgröft, verði ónothæf, hrynji gengi á bitcoin eða öðrum rafeyri. Það væri hægt að nota þau undir ofurtölvur eða aðra starfsemi sem byggir á sömu tækni og rafeyrir, Kubbakeðjutækni (e. blockchain). Hann segir aðstæður hér gríðarlega góðar en Ísland henti ekki fyrir allan tölvurekstur, Apple, Google og Facebook hafa til dæmis frekar horft til þess að reisa gagnaver í Danmörku, Finnlandi og Noregi, Gísli segir þau þurfa að vera nær notendunum, Ísland sé of langt í burtu.

Orkufrekar en ekkert miðað við stóriðjuna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Sumir hafa áhyggjur af því hversu frekar rafeyrisnámur eru á orku, bæði þarf að knýja öflugar vélar með mikla reiknigetu og kæla þær svo þær bræði ekki úr sér. Í Danmörku er útlit fyrir að gagnaverin nýti innan skamms alla vindorku í landinu, þau fái grænan stimpil en almenningur þurfi í auknum mæli að reiða sig á óendurnýjanlega orkugjafa. Hér á landi er iðnaðurinn ekki farinn að hafa mikil áhrif á orkubúskapinn.

Tæplega 1,5% alls rafmagns sem framleitt var á Íslandi í fyrra fór til tveggja stærstu gagnaveranna, annars vegar Advania og hins vegar Verne. Þau eru einu fyrirtækin sem teljast stórnotendur raforku og fá því ekki orku frá dreifiveitum heldur eru með tengipunkt við flutningsnet Landsnets. Gagnaverin eru komin fram úr landbúnaðinum en eiga ekkert í stóriðjuna sem notar um 80% allrar raforku sem framleidd er á landinu. Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri framleiðslu og orkusölu hjá HS orku, segir að tvö minni gagnaverin noti innan við tíu megawött eða í mesta lagi um 6% af heildarframleiðslu HS orku. Hann segir gagnaverin borga gott verð, betra en stóriðjan.

Íslenskt markaðstorg

Ísafjörður sumarbústaðir sumarbústaður Tunguskógur Tungudalur
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Mænar bústaðurinn Bitcoin?

Það er gróska í rafeyrisheiminum á Íslandi. Það eru til að minnsta kosti tvær íslenskar rafmyntir, Auroracoin, sem kom á markað árið 2014, og Smileycoin, sem upphaflega var skólaverkefni og þann 27. janúar opnaði íslensk kauphöll fyrir viðskipti með Bitcoin en áður var þar hægt að kaupa og selja Auroracoin, íslenskan rafeyri, fyrir íslenskar krónur. Í kynningartexta á síðunni segir að markmiðið sé að gera viðskiptin eins einföld og skilvirk og mögulegt sé ásamt því að tryggja notendum öruggt viðskiptaumhverfi. Notendur þurfa að auðkenna sig með Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Útgreiðslur í Bitcoin og Auroracoin eru framkvæmdar samstundis en krónur eru greiddar út tvisvar á dag alla virka bankadaga. Þóknun ISX nemur 1% af fjárhæð í krónum við kaup og sölu. „Okkur langaði bara að opna Bitcoin-markaðinn fyrir Íslendingum og við vonum að Bitcoin og aðrir rafgjaldmiðlar nái einhverjum framgangi hér, það er áhugi okkar á þessari nýju tækni sem drífur þetta áfram,“ segir Hlynur Þór Björnsson, einn þeirra sem standa að markaðstorginu.  

Þá má nefna að fyrirtækið Íslensk gagnavinnsla hyggst nýta tæknina til að gera sumarbústaðaeigendum og öðrum kleift að græða á því að hita hús sín með því að bjóða þeim einhvers konar varmadælu sem getur samhliða húshitun grafið eftir rafeyri. 

„Hægt að hafa þetta í herberginu ef maður opnar glugga“

Þær eru orðnar nokkrar Facebook-grúppurnar þar sem íslenskir áhugagrafarar skiptast á skoðunum, aðallega karlar, nokkur hundruð manns í hverri. Spegillinn spurði þá hvaða búnað þeir reiddu sig á við rafeyrisgröftinn og hvort þeir hefðu haft eitthvað upp úr honum. Flestir svarendur sögðust nota leikjaskjákort, eitt eða fleiri, og tengja þau við tölvu. Maður sem er með 7 kort sagði gröftinn skila um 40 þúsund krónum á mánuði. Annar sagði að hægt væri að setja saman vél með nokkrum kortum fyrir 200 þúsund krónur, slík fjárfesting gæti borgað sig á 3-6 mánuðum. Þeir giskuðu á að nokkuð margir væru með vinnslu heima hjá sér, fleiri en flesta grunaði, búnaður væri víða uppseldur.

„Fólk er mikið með þetta í bílskúrum en annars getur maður alveg haft nokkur kort í herberginu, maður slekkur bara á ofninum og opnar glugga,"

skrifar einn.

Þeir grafa ýmsar rafmyntir, einn segir Ethereum og Zcash vinsælar um þessar mundir. Ungar jaðarmyntir virðast vinsælli meðal heimagrafara en eldri myntir á borð við Bitcoin. Eftir því sem myntir þróast verður sífellt erfiðara að grafa þær og Bitcoin er sú elsta. Þá hafa verið hannaðar sérhæfðar vélar sem eru gríðarlega öflugar í því að grafa eftir Bitcoin og þegar þær eru komnar fram, er sigurvon þeirra sem einungis eru búnir skjákortum lítil. Þeir eru með smáskóflu en standa andspænis stórri gröfu.

Miklar sveiflur, mikil áhætta

Þetta er áhættufjárfesting, ekki ósvipað því að veðja á úrslit fótboltaleikja á netinu. Gengi myntanna er afar sveiflukennt, getur sveiflast um tugi prósenta á einum degi. Allt snýst um að veðja á réttar myntir á réttum tíma, selja á réttum tíma, kaupa á réttum tíma. Eins og Björgvin Ingi Ólafsson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, sagði í Speglinum í gær, virðist þetta frekar vera nýtt sem spákaupmennskueign en gjaldmiðill. Í fyrra 13 faldaðist virði Bitcoin. Síðan hefur leiðin legið niður á við. Frá því Spegillinn lagði inn fyrirspurn á mánudagskvöld hefur Bitcoin fallið talsvert í verði og grafari sem Spegillinn ræddi við í dag, sagði marga hræðast þetta fall, heimagrafarar fari líklega að draga saman seglin og selja búnað til að tapa ekki of miklu, hrynji allt. 

Skuggalegur munur á þekkingu nörda og atvinnumanna

„Maður hefur stundum á tilfinningunni að þeir sem hafa mestan áhuga á þessu séu ungir nördar sem finnst gaman að pæla í einhverju sem fullorðnir skilja ekki og draga stórar ályktanir um framtíðina, sem er gríðarlega óviss í þessu. En það er líka, það sem er skuggalegt í þessu er að það er gríðarlega mikill munur á þekkingu þessara stóru aðila og þeirra sem eru í Facebook-grúppunum að spá fyrir um þróun,“  segir Björgvin Ingi.

Félagi græddi tugi milljóna

Skattamálin eru óljós og íslensk lög ná ekki utan um rafeyri. Maður sem hefur staðið í rafeyrisgreftri frá árinu 2010 og er með námu heima í stofu segir að sér hafi gengið vel, hann tilheyri hópi grafara og einn þeirra hafi grætt tugi milljóna. Hávaðinn frá vélunum sé ærandi en þetta sé þess virði. Hann notar rafeyri reglulega í viðskiptum, pantar flugferðir á abitsky.com og gjafabréf á amazon, svo dæmi séu nefnd. Hann segir erfitt að skipta rafeyri í íslenskar krónur, þess vegna fari þeir krókaleiðir. Kaupi til dæmis gjafabréf á vefsíðunni Gyft.com og fái þau send í tölvupósti. Hann vill ekki vekja athygli á sjálfum sér skattsins vegna. 

Bankar þurfa að vita hvaðan féð kemur

Björgvin Ingi hjá Íslandsbanka segir þá skyldu hvíla á bönkum að gera grein fyrir uppruna peninga sem lagðir eru inn í þeim tilgangi að koma í veg fyrir peningaþvætti. „Þessir aðilar sem eiga hugsanlega stórfé í erlendum bitcoin kauphöllum og ætla að færa það úr bitcoin í dollara og ætla svo að flytja þá dollara til Íslands. Þá er ekki ljóst, held ég, frá sjónarhóli skattayfirvalda eða bankanna sem taka við, hvernig það eigi að gera.“ Umræðan um hvernig best sé að koma rafeyri í raunheima sé áberandi á netinu.

Rétt að telja Bitcoin-eign fram

Jón Ásgeir Tryggvason, sérfræðingur hjá embætti ríkisskattstjóra segir lítið hafa reynt á mál í tengslum við rafmynt í eftirliti ríkisskattstjóra, eftirlitið komi eftir á, þetta sé hulinn heimur og umfang eigna óþekkt. Hann segir að það skorti reglur um rafmynt, það þurfi að skýra umgjörðina. Embættið hafi rætt þetta við fjármálaráðuneytið. Þó virðist sem eign í rafmynt hafi aukist mikið á síðasta ári og því ætti þetta að skila sér á framtölin í vor. Í fyrsta lagi þurfi að skýra hvers eðlis þessar tekjur séu. Hvort þetta teljist vaxtatekur, gengishagnaður eða söluhagnaður. Hann segir koma sterklega til greina að flokka þetta sem söluhagnað. Þá sé spurning á hvaða tíma ætti að færa tekjur til bókar, þegar rafmyntin verður til eða þegar henni er skipt í krónur eða dollara. Loks þurfi að ákveða hvernig eigi að reikna hagnaðinn. Ef einhver kaupir einn bitcoin á milljón, kaupir svo aftur einn bitcoin ári síðar á tvær milljónir, selur svo einn ári síðar, við hvaða verð á þá að miða þegar hagnaður er reiknaður? Verðið á fyrri peningnum sem var keyptur eða þeim síðari. Jón Ásgeir segir einfaldast að miða við meðalkaupverð á því bitcoin safni sem viðkomandi á, það sé í samræmi við útreikning á söluhagnaði hlutabréfa. En hvað um þá sem eiga bara rafeyri á netinu, hafa ekki skipt honum yfir í krónur eða dollara. Jón Ásgeir telur rafeyriseignir skattskyldar, þeir sem eigi bitcoin eða aðra rafmynt eigi að skrá það á persónuframtali í flokkinn Aðrar eignir og áður ótaldar á markaðsverði rafmyntarinnar í lok tekjuársins.

Mikið traust 

Traustið til þeirra sem eiga rafeyri er mikið því það er líklega erfitt fyrir skattinn að komast að því hvort einhver úti í bæ á bitcoin eða ekki. Eignir heimagrafaranna hljóta þó að vera litlar samanborið við rafeyriseignir námufyrirtækja sem kaupa hýsingu hjá íslenskum gagnaverum. Í nýlegri grein Stundarinnar segir að ætla megi að vinnslan á Íslandi skili fyrirtækinu Bitfury yfir þremur milljörðum króna í árstekjur en að líklega reynist það skattayfirvöldum erfitt að finna hagnaðinn. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins sem heldur utan um vinnsluna hér, Bitfury Iceland ehf, nam nettóhagnaður um 110 milljónum á síðasta ári. Gísli segir flesta viðskiptavini Advania hafa stofnað fyrirtæki á Íslandi og greiði því líklega skatta hér. En hvað um afurðina, rafeyrinn. Er hann skattlagður? „sú umræða sem ég hef heyrt um skattlagningu á rafeyri erlendis hefur meira snúist að því hvernig hann er skattlagður þegar þú fjárfestir í honum. En að búa til rafeyri, nú þekki ég bara ekki hvernig það ætti að líta út, ætli það sé ekki bara eins og að búa til ál, eitthvað svoleiðis.“

epa05097119 An information board displays currency exchange rates in Moscow, Russia, 11 January 2016. Euro and US dollar resumed their growth up from the previous exchange rates. The euro soared to 82.8 rubles and dollar soared to 75.95 rubles.  EPA/MAXIM
 Mynd: EPA
Miðað við stöðuga gjaldmiðla er bitcoin eins og bátur fyrir opnu hafi.

Jón Ásgeir hjá Ríkisskattstjóra segir að þetta þurfi að skoða. Öll félög eigi að gefa upp allar sínar eignir en óljóst sé hvenær eignfærslan eigi sér stað, þegar grafið er eftir rafeyri eða þegar honum er skipt yfir í raungjaldmiðil.

Stjórnvöld ætla að stíga varlega til jarðar

Fjármálaeftirlitið og stjórnvöld hafa varað við áhættunni sem fylgir viðskiptum með sýndarfé. Í samantekt fjármálaráðuneytisins um sýndarfé segir að ýmis álitaefni hafi verið uppi í tengslum við lagalega stöðu rafmyntar, t.d. hvernig skuli greiða skatta af viðskiptum með hana. Jafnframt sé til staðar gríðarleg óvissa um verðgildi hennar, enda hafi dæmin sýnt að gengi rafmyntar getur sveiflast mikið. Þá segir að á vettvangi Evrópusambandsins sé fylgst náið með þróun rafmyntar en enn liggi ekki fyrir drög að löggjöf um hana þó ýmsar hugmyndir hafi komið fram. Menn vilji stíga varlega til jarðar og ekki setja löggjöf sem gæti virkað hamlandi á framþróun tækninnar. Fjármálaráðuneytið fylgist með þessari þróun og telur æskilegt að Ísland fylgi þróun ESB og setji ekki séríslenskar reglur um rafmynt. 

Megi ekki bitna á forvitnu áhugafólki

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hefur lítið skoðað rafmyntir. Óli Björn Kárason, formaður nefndarinnar, segir þetta skólabókardæmi um hvernig tæknin og viðskiptalífið séu alltaf á undan stjórnvöldum. Að þessu þurfi að huga en honum finnst brýnna að huga að netverslun, hvernit tryggja megi samræmi og samkeppnishæfni í skattheimtu á milli landa. Bryndís Haraldsdóttir segir að þetta verði líklega skoðað á næstunni og Helgi Hrafn Gunnarsson leggur áherslu á að skattayfirvöld gangi ekki of hart fram gegn almennum borgurum, þegar þar að kemur. Geri ekki kröfu um sérfræðiþekkingu af þeirra hálfu og stimpli þá ekki sem glæpamenn. Þetta séu leikmenn sem þekki ekki skyldur sínar og réttindi, séu bara forvitnir og að prófa sig áfram. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV