Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gott grín getur verið tragískt

Mynd:  / 

Gott grín getur verið tragískt

10.03.2019 - 10:30

Höfundar

„Þetta er svolítið svona Bílastæðaverðirnir, sem er format sem mér finnst rosa gaman að vinna með. Gleði og mikið talað en ekki endilega mikið innihald í því sem sagt er,“ segir Jón Gnarr um nýjasta leikrit sitt, Súper sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu um næstu helgi.

Jón er handritshöfundur leikritsins en því er leikstýrt af Benedikt Erlingssyni. Jón fer sjálfur með eitt af aðalhlutverkunum en með honum eru m.a. Eggert Þorleifsson, Edda Björgvinsdóttir, Arnmundur Ernst Backman, Sólveig Arnarsdóttir og fleiri. „Þarna fæ ég einstakt tækifæri til að vinna með frábærum leikurum, og sjálfum mér. Ég leik sjálfur Kristján verslunarstjóra í Súper.“

Kjöt snýst um fólk og fólk snýst um kjöt

Verkið gerist í versluninni Súper, þar sem kjöt snýst um fólk, eins og segir í lýsingu verksins. „Kjöt snýst um fólk og fólk snýst um kjöt. Margir vilja meina að við séum að ganga að plánetunni okkar dauðri, aðallega með kjötáti. Með okkur sjálfum og okkar hömlulausa kjötáti. Ég sá viðtal við þekktan og virtan vísindamann sem sagði að eitt það besta sem við gætum gert til að spyrna við loftslagsbreytingum væri að hætta að borða nautakjöt. Það er bara stórt vandamál og kjöt er á ákveðinn hátt jafnvel bara fíkn,“ segir Jón.

Hann lýsir verkinu sem absúrd kómedíu og segir að þar megi jafnframt finna ákveðinn boðskap. „Mér hefur alltaf fundist súrrealisminn vera andsvar við fasisma. Andstaðan við fasisma er súrrealismi. Og súrrealismi kom fram sem ekki bara listræn hreyfing heldur líka mjög pólitísk. Þannig að það er verið að takast á við neyslu og leitina að fullnægju, en líka þjóðernishyggju. Íslensk þjóðernishyggja er til dæmis rosalega tengd mataræði. Hún er mjög fljót að verða umræða um hvað maður borðar. Eins og margir segja, maður getur hreinlega étið það í sig að vera Íslendingur,“ segir Jón, en í versluninni Súper er öllu íslensku gert hátt undir höfði. „Samkvæmt lögmálum Súper þá er allt gott sem er íslenskt. Ef það er íslenskt þá er það gott, þú getur treyst því. Ef það er útlenskt þá er það vont, samkvæmt lögmálum Súper.“

Tragískt grín með léttleika að leiðarljósi

Í Súper er komið inn á þjóðernishyggju og þjóðernisstolt, sem Jón segir að geti verið vandmeðfarið. „Við erum stolt af því að vera Íslendingar og erum óþreytandi við að telja upp hvað er það sem gerir okkur að Íslendingum og svona. En ég velti því oft fyrir mér hvernig þetta blasi við Íslendingum sem eru af erlendu bergi brotnir.“

„Grín er náttúrulega tragedía í sjálfu sér. Gott grín er tragískt, eða getur verið það. Þannig að við erum að takast á við svona hugleiðingar um tilveruna, en samt með léttleika að leiðarljósi.“

Súper er frumsýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu  16. mars. Jón segist sjaldnast fá nokkurn fiðring eða spennu í aðdraganda frumsýningar, nema helst alveg á lokasprettinum. „Ég er ekkert að pæla í þessu [...], en svona tveimur tímum fyrir frumsýninguna þá fyllist ég algjörri skelfingu.“

Rætt var við Jón Gnarr um Súper í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.