Gott að vakna við AC/DC

Mynd: RÚV / RÚV

Gott að vakna við AC/DC

31.03.2015 - 09:53

Höfundar

Hvert er uppáhalds 80‘s lagið? Hvaða lag vildir þú að þú hafðir samið? Hvaða lag syngur þú í karókí? Bragi Valdimar Skúlason fór á tónlistartrúnó á Rás 2 og svaraði þessum spurningum og mörgum fleiri í þættinum Laugardagskvöld með Matta.

Hvert var fyrsta lagið sem þú hlustaðir á aftur og aftur?
Það er eitt af því sem var svona þvingað upp á mig. Ég held að það hljóti að vera Saga úr sveitinni með Megasi og Spilverkinu, sem kom út þegar ég var eins árs eða svo. Það var hlustað á þetta aftur og aftur og aftur og aftur á mínu heimili. Þetta, ásamt móðurmjólkinni, er svona uppeldisfóðrið.

Eftirminnilegasta lag af fyrstu tónleikunum sem þú fórst á?
Fyrstu tónleikarnir sem haft var fyrir að komast á voru Whitesnake í Reiðhöllini, minnir að það hafi verið ´88. Þar voru ungir menn að hita upp sem hétu Quireboys, sem á þessum tónleikum stálu alveg senunni, voru í miklu stuði. Þeir voru allavega eftirminnilegri en Whitesnake.

Lagið sem þú sagðir engum að þú hafðir gaman af í æsku?
Ég er óttalega mikill poppari og hægt er að týna ýmislegt vandræðalegt til, af diskói og almennu sykurhúðuðu. Það sem er kannski undarlegast að ég hafi hlustað mikið á sem krakki voru Mills Brothers. Ég hafði t.d. mjög gaman af því að spila Mills Brothers í plötuspilaranum og setja á vitlausan hraða – Það fannst mér sjúklega fyndið. Þetta situr enn í manni og ég held að Mills Brothers sé í dag mest spilaða tónlistin af Spotify á mínu heimili.

Hvert er uppáhalds 80's lagið þitt?
Maður lenti svolítið í þessari þungarokksbylgju. Óumflýjanlega, það var bara ekkert annað í boði þar sem ég var. Það var bara, annað hvort hlustar þú á þungarokk eða þú bara ferð héðan. Það mótaði ansi mikið. Það hefur alltaf verið poppstrengur í mér og hefði mátt týna eitthvað þaðan en ég ákvað að fara þungarokksmegin. Það var hljómsveit sem var, af einhverjum ástæðum, mjög vinsæl á Ísafirði – þýska hljómsveitin Helloween. Og ég ákvað að velja lagið Future World.

En uppáhalds 90's lagið þitt?
Þarna lendir maður í Brit-poppi. Þegar grunge-ið kom, notaði ég það sem ákveðna útgönguleið aftur í popp-heima. Ég held að það hafi tekist ágætlega, ég hef meira og minna haldið mig þar.Ég tók því mjög fagnandi þegar Blur og allt það kom, og fór aftur að poppa. En ég valdi lag með hljómsveitinni Pulp, Common People. Ég man ennþá hvað ég var ótrúlega glaður þegar ég heyrði þetta lag fyrst. Það kom í útvarpinu og ég var að fara leggja einhversstaðar og ég ákvað að halda áfram að keyra, þetta var svo ljómandi skemmtilegt.

Lag af hvaða plötu færð þú aldrei leið á?
Góð spurning því ég hef nefnilega fengið leið á mjög mörgum plötum. En vinir mínir í AC/DC eiga eina plötu sem heitir Dirty Deeds Done Dirt Cheap. Það er fyrsti geisladiskurinn sem ég kaupi. Hún er nefnilega alltaf búin að liggja þarna og er enn til, þó að geisladiskar fari kannski ekki oft í tækið lengur. En þetta er eitthvað sem er alltaf óhætt að setja í, og til marks um það er lagið Ride On. Það var lengi vel vekjaraklukkan mín og ef maður getur vaknað við eitthvað lag í talsverðan tíma án þess að hata það – þá er eitthvað gott í gangi.

Hvaða lag vildir þú að þú hefðir sjálfur samið?
Þau eru ansi mörg. Ég var að hugsa svolítið á slóðum Queen eða eitthvað svoleiðis, en endaði á David Bowie og Life on Mars. Kannski ekki Bowie-legasta Bowie lagið. Ég hlustaði mikið á það og finnst þetta alveg stórmerkilegt lag. Það stendur svolítið út úr flestu öðru og er mjög einkennandi lag fyrir sjálft sig.

Hvaða lag syngur þú í karaókí?
Ég er ekki mikill karókí-karl en maður lætur sig alveg hafa þetta á svona tuttugustu krús. Ég held ég hafi aldrei tekið sama lagið tvisvar í karókí. Ég á nokkrar hræðilega minningar úr karókí af því ég vel alltaf lag sem hentar mér ekki, sem er mjög óheppilegt. Ég reyndi einu sinni að taka Common People í karókí, með hræðilegum afleiðingum. En einu sinni tók ég hið dásamlega lag Happy Talk, úr söngleiknum South Pacific. Þetta er auðvitað þekktast í 80‘s útgáfu, sem er reyndar skelfileg. Þetta er gott karókí lag, ég þarf að muna það næst. Þetta er létt og löðurmannlegt.

Hvert er uppáhalds Baggalúts lagið?
Þau eru mörg ágæt, sum betri en önnur og það er dagamunur á því hvert er uppáhalds. Stundum er maður í vemmilega gírnum, stundum í grín-kántrí gírnum og stundum bara í diskó gírnum. En það er svo gaman að hafa komið „það var sagt mér að það væri partý“ inn í íslenskan dægurlagatexta. Ég held að það verði grafskriftin mín. Lagið er Laugardagskvöld.

Hvaða lag á að spila í jarðarförinni þinni?
Komdu og skoðaðu í kistuna mína, þó það væri gaman, þá efast ég um að það nái í gegn. En ég held að ég sé svolítið búinn að gera mér það að lag sem ég samdi á sínum tíma verði spilað þarna. Það er farið að detta svolítið inn í þessa kreðsu. Þetta er lag sem hefur í sjálfu sér aldrei komið út og er bara til í útgáfu sem Valdimar og Sigga Thorlacius tóku í áramótamóti Hljómskálans. Það heitir Líttu sérhvert sólarlag og hefur eignlega farið á flakk. Kórar eru farnir að syngja þetta og fólk farið að útsetja þetta og lagið öðlast sitt eigið líf. Ég held að þetta verði sett á prógrammið – og svo eitthvað gott með KISS.

Laugardagskvöld með Matta

Á laugardagskvöldum fer Matti á tónlistartrúnó með góðum gestum á Rás 2. Hann spyr þá tuttugu einlægra spurninga og gefur þeim tækifæri á að svara með jafnmörgum lögum.