Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gott að taka á móti hinsegin flóttafólki hér

19.03.2018 - 18:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Nína Helgadóttir verkefnisstjóri flóttamannamála hjá Rauða krossi Íslands segir gott að taka á móti hinsegin flóttafólki hér: „Ég held að þetta sé nú kannski eitt af því sem við höfum gert hvað best undanfarin ár. Að við höfum tekið hinsegin fólki opnum örmum og viðhorfin hafa breyst alveg gríðarlega mikið“.

Þriðji og síðasti hópur flóttafólks, sem Ísland tekur á móti á þessu ári, kom til landsins í dag. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mosfellsbæ útbjuggu íbúðirnar þar sem fólkið sest að. Reyndar gistir eitt parið á gistihúsi því eftir er að útvega þeim íbúð. 

Fólkið er frá Úganda. Við komuna í Mosfellsbæ virtust þau öll hress og hamingjusöm:  „Ég held að fólk sé almennt alveg ótrúlega fegið að vera komið í skjól og öryggi. Það er náttúrulega númer eitt tvö og þrjú. Og ekki síst þeir sem eru með börn með sér, gera þetta fyrir börnin. Þetta er auðvitað ótrúlegt átak að flytja sig og taka sig upp og koma hingað svona langt norður eftir og í ólíkt samfélag. En erum við ekki bara öll eins inn við beinið að lokum“, segir Nína. 

Í hópnum er móðir með fjögur börn, einstaklingar og par; samtals tíu manns. Flóttamannstofnun Sameinuðu þjóðanna fór þess á leit við Ísland að það tæki á móti hinsegin flóttafólki og velferðarráðuneytið hefur nýlega samið við Samtökin '78 um stuðning við hinsegin flóttafólk. Þau lögðu af stað frá Naíróbí í Kenýa í nótt en þar hafa þau búið undanfarið. Samkynhneigð er bönnuð samkvæmt lögum í Úganda.

Nína er viss um að fólkið á eftir að auðga þjóðfélagið: „Ég held að þetta sé nú eitt af því sem við höfum gert hvað best undanfarin ár. Að við höfum tekið hinsegin fólki opnum örmum og viðhorfin hafa brest alveg gríðarlega mikið. Það er auðvitað dálítið í land ennþá en ég held að við höfum gert þetta vel. Og það er gott að taka á móti fólki inn í þetta andrúmsloft hérna á Íslandi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Nína Helgadóttir verkefnisstjóri flóttamannamála hjá Rauða krossi Íslands
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Við komuna til Mosfellsbæjar í dag.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV