Gotneskar martraðir Billie Eilish

Mynd með færslu
 Mynd:

Gotneskar martraðir Billie Eilish

01.04.2019 - 10:41
Gotneskt látleysi, lágværar martraðir og dulúð eru á meðal þeirra hugtaka sem komu upp í huga Lovísu Rutar Kristjánsdóttur þegar hún hlustaði á nýja plötu Billie Eilish sem ber titilinn WHEN WE FALL ASLEEP, WHERE DO WE GO?:

Billie Eilish, kornung listakona er að fletta nýjum blöðum í popptónlistarheiminum um þessar mundir með sinni fyrstu breiðskífu sem kom út á föstudaginn við góðar viðtökur. Viðtökurnar ættu ekki að koma á óvart enda hlustendur orðnir spenntir eftir kítlurnar sem hún hefur verið að gefa út eina af annarri. Lögin you should see me in a crown og when the party's over voru fyrstu tveir sínglarnir sem færðu aðdáendum forsmekkinn af því sem koma skyldi en svo birtist þriðji smellurinn bury a friend og þá urðu aðdáendur óþreyjufullir.

Hér er um að ræða 17 vetra söngkonu frá Los Angeles sem er framúrstefnan holdi klædd. Stíllinn er hreinn en skítugur í senn. Hún kom fyrst fram á sjónarsviðið með laginu ocean eyes sem féll vel í kramið hjá hlustendum og gaf út smáskífuna don‘t smile at me í kjölfarið, árið 2017 en hún hefur verið að þróa stíl sinn síðan hún kom út. Billie er afar snoppufríð, smávaxin ung stúlka en gerir útlit sitt hrárra með því að klæðast þungum og stórum fötum og sleppa óþarfa farða. Hún tikkar ekki í sömu poppstjörnubox og margar poppsystur hennar en hún er sérstæð bæði í klæðaburði og tónlistarstíl. Hún er voldug þrátt fyrir ungan aldur, ögrandi á látlausan hátt ef svo má að orði komast. Ariana Grande, Halsey og Lady Gaga eru efstar kvenna á Billboard listanum þegar platan kemur út en þessi tiltekna söngkona fetar ekki beint sama veg. Billie er nýstárlegri, hún er yngri og að gera allt öðruvísi hluti.

 

 

Titill plötunnar, WHEN WE ALL FALL ASLEEP, WHERE DO WE GO? , er í formi spurningar sem er leiðandi og spennandi eins og söngkonan sjálf. Plötuumslagið, þar sem söngkonan situr á hvítu stofnanalegu rúmi með tryllingslegt yfirbragð og hvítar linsur, gefur svo sterka mynd af konseptinu en platan er martraðarkennd og hræðileg á köflum. Dyggir hlustendur þekkja titil plötunnar sem er úr texta lagsins bury a friend og platan verður þess vegna kunnugleg um leið. Inngangurinn eru 14 persónulegar sekúndur, einföld kynning í formi nokkurra upphrópunarmerkja. Svo hefst taktfestan sem er leiðandi gegnum plötuna en hún er meginuppistaðan í þeim lögum sem fjalla ekki um ástarsorg eða eitthvað þyngra. Í ballöðunum i love you, 8 og when the party’s over kveður svo við annan tón en þar berskjaldar söngkona hlið sem er fjarri þeirri egósentrísku grimmu hugmynd sem einkennir hin lögin með einfaldri tónsmíð með gítargripum og angurværum söng.

Hún bætir ýmsum aukahlutum í músíkina. Öskur, ískur og þess háttar afgerandi hljóðbrellum sem þjappa hugmyndinni saman, þ.e. konsepti plötunnar, draumkenndur hryllingur. Grótesk dulúð. En í takt við þessi hljóð eru órólegar bassalínur, hlátrasköll, flugvélahljóð og dimmar karlmannsraddir. Raddsvið söngkonunnar er að sama skapi sérstætt en hún syngur lágt og hvíslar á köflum. Stundum er hvíslið svo einlægt að manni líður eins og hún sé að reyna að ná til hlustandans. Hún tekur djúpa andadrætti inni á milli sem er verulega í takt við martraðarkonseptið. Angistin er beitt en einlæg í senn.

Eilish er fær lagahöfundur og textar hennar beittir þó stundum geti verið erfitt að heyra almennilega orðaskil. Hún er að vinna með þungan efnavið. Hún notar tungumál aldamótunganna (e.millennials) með þroskuðum hætti. Hún nálgast hlustendur sína beint, ekki með slaufum eða skrauti þó hún mundi myndmál með nokkuð skilvirkum hætti.

Still just drinking canned Coke / I don't need a Xanny to feel better / On designated drives home / Only one who's not stoned / Don't give me a Xanny, now or ever (Xanny)

The way I’m drinking you down / Like I wanna drown / Like I wanna end me (Bury A Friend)

Tell me which one is worse / Living or dying first (You Should See Me In A Crown)

Tore my shirt to stop you bleedin' / But nothin' ever stops you leavin' (When The Party’s Over)

Textar Eilish eru í grunninn einfaldir þó svo yrkisefnið sé af ýmsum toga. Hún er hrokafull í textum sínum en opnar sig inn á milli (you should see me in a crown). Hún leitar um víðan völl, til vítis, (all good girls go to hell) með viðkomu hjá ástinni í Central Park (i love you) og til einmanaleikans (i wish you were gay). Hún er mjög greinilegur aldamótungur þegar textarnir eru skoðaðir. Skrifar texta með skýra kynvitund, tekur á andlegum málefnum, yfirstandandi lyfjafaraldri og lélegri sjálfsmynd. Lokalagið goodbye er eins angurvær samantekt, hún notar texta úr nokkrum laganna, minnir hlustanda á ‏‏‏‏‏‏þau og kveður með formlegum titli.

Við hlustun plötunnar leiðir höfundur hugann að tónlistarkonum á borð við Lorde og Lana Del Rey þrátt fyrir að Eilish hafi sagt að hennar helsti áhrifavaldur sé rapparinn Tyler The Creator, og hans áhrifa gætir upp að vissu marki. Þegar kom að útgáfu plötunnar virðist sem svo að ungdómur landsins hafi verið afar meðvitaður ef miða má við viðbrögðin á samfélagsmiðlum, enda komust lögin hratt og örugglega upp vinsældarlista streymisveitunnar Spotify á einni helgi. Á einni helgi komst bad guy í efsta sætið á Global Top 50 listann á Spotify, wish you were gay í fjórða og bury a friend í fimmta. Alls eru 11 lög af 14 inná listanum svo hlustunin virðist ansi stöðug.

Þessi plata er spennandi. Hlustandinn heyrir drungalega fagurfræði í annars frekar melódramatískri músík. Hér er komin listakona sem biður um meira og gerir ráð fyrir eftirvæntingu. Hlustandinn veit ekki hverju hann getur á von á næst - því við sofnum öll á endanum en þegar við sofnum, hvert förum við þá?