Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Gosmengun jafn slæm fyrir dýr og menn

16.09.2014 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Bændur á því landsvæði, þar sem mengunar frá gosstöðvunum gætir hve mest, hafa áhyggjur af velferð sauðfjár þar sem enn er ósmalað. Sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun segir mengun hafa sömu ertandi áhrif á dýr og menn.

Á Austur- og Norðausturlandi, þar sem brennisteinsdíoxíðmengun frá gosinu í Holuhrauni hefur verið hve mest, eru fyrstu göngur að mestu búnar. Enn er þó talsvert af fé á fjalli og aðrar göngur eftir og oftast einhverjar leitir eftir það.

Einar Ófeigur Björnsson, bóndi á Lóni í Kelduhverfi, segir að menn hafi fundið fyrir menguninni í göngum. „Þetta er náttúrulega leiðinda mengun bæði fyrir menn og skepnur og bæði menn, hestar og fé verður oft þreytt í smölun. Þannig að það getur orðið erfitt að eiga við það."

Auður Arnþórsdóttir, sérgreinadýralæknir há Matvælastofnun, segir að þegar um sé að ræða mengun frá gosstöðvum gildi það sama um dýr og menn. Þess vegna hafi því verið beint til bænda, að fara hægar yfir og leggja ekki meira á féð en nauðsyn krefur.

Einar segir ljóst að smölun muni teygjast fram eftir hausti. „Þetta er nú verkefni sem teygist oft fram undir miðjan október, með öllu. Þannig að við verðum bara að búa við þetta og leysa úr því eftir bestu getu eftir því sem að þessu vindur fram."