Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gosinu lokið en þúsundir á hrakhólum

28.06.2019 - 06:26
Mynd með færslu
 Mynd: epa
Hersveitir hafa verið sendar til aðstoðar þúsunda íbúa Papúa-Nýju Gíneu, sem hrakist hafa að heiman vegna eldgoss í fjallinu Ulawun, einu af sextán hættulegustu eldfjöllum heims. Stjórnvöld segja gosið afstaðið og hvorki ösku né hraun streyma lengur úr gíg fjallsins, en allt að 13.000 manns eru á hrakhólum eftir hamfarirnar. Þar af hafa um 1.000 manns misst heimili sín.

James Marape, forsætisráðherra Papúa-Nýju Gíneu, segir að herinn hafi verið sendur á vettvang til að meta aðstæður og aðstoða íbúa Nýja Bretlands, eyjunnar sem Ulawun er á, við hreinsunar- og uppbyggingarstörf.

Leo Porikura, yfirmaður almannavarna á vesturhluta Nýja Bretlands, segir megináherslu nú lagða á að koma brýnustu nauðsynjum til þeirra sem verst urðu úti í hamförunum. Engar fregnir hafa borist af manntjóni.