Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gosið talið lítið

23.08.2014 - 16:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn Veðurstofu Íslands telja lítið gos hafa hafist á sprungu norðaustur af Bárðarbungu, í Dyngjujökli, rétt rúmlega tvö í dag. Gosið er talið vera lítið. Vísindamenn og flugmenn eru nú á flugi á TF Sif yfir jökulinum. Þeir hafa ekki séð neinar breytingar á yfirborði jökulsins.

Vísindamennirnir segjast heldur ekki sjá að vatn sé að aukast við upptök jökulsár.

Jarðvísindamenn eru hins vegar vissir um nákvæmni mælinga sinna, jarðeldur hafi náð sambandi við jökulbotninn en hugsanlega hafi þetta verið mjög lítil snerting.

Jökullinn á þessum stað er um 500 metra þykkur og óvíst er hversu langur tími eða hvort gosið kemst upp úr jöklinum. 
Veðurstofan hefur bannað flugumferð á stóru svæði í kringum Bárðarbungu. Mikil ókyrrð hefur verið á þessum slóðum í dag.

 

Kvika komist í snertingu við ís

Kristín Vogfjörð hjá Veðurstofu Íslands, segir að menn telji ágætar vísbendingar, af jarðskjálftamælum, um að kvika hafi komist í snertingu við jökulinn. Kvikan virðist hafa komist í samband við vatn.

 

Rýmingaráætlun farin í gang

Sýslumaðurinn á Húsavík segir að rýmingaráætlun sé farin í gang. Það sé fyrsta skrefið. Ekki liggi fyrir nægar upplýsingar til að ákveða hvort rýmt verði í Kelduhverfi eða Öxarfirði, en allir verði að vera tilbúnir þegar og ef kallið komi. Hann segir að talsverður fjöldi ferðamanna sé á svæðinu; mögulega 1 - 200 manns, á svæðinu norðan rýmingarsvæðisins.  

 

Neyðarstig undirbúið

Víðir Reynisson hjá Almannavörnum segir að neyðarstig sé í undirbúningi. Atburðurinn sé lítill en óljóst hver þróunin verði. TF SIF er á flugi og mun vera yfir jöklinum. Verið er að loka Jökulsárgljúfrum og Dettifosssvæðinu og koma ferðamönnum þar í burtu. Sms-skilaboð hafa verið send á gsm síma allra sem eru á svæðinu.

Búið er að virkja Samhæfingarmiðstöð Almannavarna. Engin rýming verður að svo stödd í Kelduhverfi eða Öxarfirði, samkvæmt upplýsingum Almannavarna. Bein útsending er á Rás 2. Fólk þar er hvatt til að vera vel á verði og fylgjast með útsendingum og hafa kveikt á farsímum sínum, segir Víðir.