Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gosið í Gvatemala í rénun

20.11.2018 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgosið sem hófst í Fuego-eldfjallinu í Gvatemala á sunnudag er mjög í rénun og nánast búið, að sögn yfirvalda vestra. Gosið, sem er það fimmta sem orðið hefur í fjallinu á þessu ári, var feikiöflugt þann stutta tíma sem það stóð. Lýst var yfir hæsta viðbúnaðarstigi og gripið til þess ráðs að flytja um 4.000 íbúa í hlíðum þess og næsta nágrenni á öruggan stað.

 

Gosið færðist fremur í aukana heldur en hitt fram eftir mánudeginum, en svo tók að sljákka verulega í því þegar líða fór á kvöldið. Yfirvöld lögðu þó hart að þeim sem flutt voru á brott að bíða með að snúa aftur fram á þriðjudag.

Gos í hinu 3.763 metra háa Volcan de Fuego, eða Eld-Eldfjalli, eru oftar en ekki kröftug en stutt - og stundum mannskæð. Engar fregnir hafa þó borist af manntjóni í þessu gosi. Þegar fjallið gaus í júní síðastliðnum dóu yfir 200 manns í svokölluðu gusthlaupi; skýi úr sjóðheitu gasi og gosefnum sem æðir niður hlíðar eldfjalla á ógnarhraða og dregur til sín allt súrefni.