Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gos í Bárðarbungu talið líklegra en áður

30.08.2014 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Gos í Bárðarbungu er nú talið líklegra en áður. Þetta kom fram á fundi vísindamannaráðs Almannavarna í dag. Skjálftavirkni við Bárðarbungu er enn mjög mikil, sú mesta hefur verið á 15 kílómetra löngu svæði með miðju á jaðri Dyngjujökuls.

Um 700 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti, klukkan 02:35 að stærðinni 4,5 í norðurhluta Bárðarbungu og annar af stærðinni 4,2 á svipuðum slóðum og einn 5,4 að stærð á suðurbrún öskjunnar.

GPS mælingar sýna áframhaldandi láréttar færslur vegna gliðnunar við norðurjaðar Vatnajökuls. Ekki hafa orðið óvenjulegar breytingar á rennsli í Jökulsá á Fjöllum né öðrum ám sem renna norðvestur úr jöklinum.

Erfitt er að segja til um framhaldið en vísindamannaráð telur eftirfarandi möguleika líklegasta: að innflæði kviku stöðvist og ekki komi til annars goss, gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist norðan Dyngjujökuls, eldgos hefjist á ný en sprungan verði að hluta eða öll undir Dyngjujökli sem gæti leitt til hlaups í Jökulsá á Fjöllum eða gos í Bárðarbungu sem gæti leitt til jökulhlaups og ef til vill sprengigoss með öskufalli.