Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Google skerpir reglur á pólitískum auglýsingum

21.11.2019 - 03:41
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Google kynnti í gær breytingar sem eiga að gera reglur fyrirtækisins fyrir pólitískar auglýsingar skýrari. Þar segir að nú þegar sé öllum auglýsendum bannað að ljúga í auglýsingum sínum, en reglurnar verði gerðar einfaldari og skýrari.

Í tilkynningunni er meðal annars sagt að bannað verði að birta efni með myndum eða myndböndum sem hefur verið átt við. Scott Spencer, varaformaður auglýsingadeildar Google, segir það stríða gegn reglum fyrirtækisins að fara með rangt mál í auglýsingum, hvort sem það sé verð á stól, eða fullyrðing um að hægt sé að greiða atkvæði með smáskilaboðum, að kjördegi hafi verið frestað, eða að frambjóðandi sé látinn.

Meðal auglýsinga sem verða bannaðar eru auglýsingar eða hlekkir á upplýsingar þar sem birtar eru rangar fullyrðingar sem gætu grafið undan trausti kjósenda eða kosningaþátttöku. Spencer segir þó að fyrirtækið viti að skiptar skoðanir séu mikilvægar lýðræðinu, og enginn geti hrakið hverja einustu pólitísku hlið mála. Hann býst því við að þær auglýsingar sem Google eigi eftir að taka niður verði takmarkaðar, en það verði gert þegar brotin eru skýr.