Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Google dæmt til 50 milljón evra sektar

22.01.2019 - 06:44
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Google var sektað um 50 milljónir evra, jafnvirði nærri sjö milljarða króna, í Frakklandi í gær vegna brota á persónuverndarlögum Evrópusambandsins. Dómari sagði upplýsingar netrisans um notkun hans á persónuupplýsingum óskýrar og ógegnsæjar.

Notkun gagna, geymslutími þeirra eða hvaða persónugreinanlegu gögn séu notuð til auglýsingasölu séu dreifðar í fjölda skjala, síðna og stillinga, segir í dómnum að sögn Deutsche Welle. Þá hefur Google ekki aflað samþykkis notenda sinna fyrir persónulegum auglýsingum, að sögn franska dómstólsins.

Google segir í yfirlýsingu eftir dóminn að stjórn fyrirtækisins væri að kynna sér hann. Fólk geri miklar kröfur til fyritækisins um gagnsæi og að það hafi fulla stjórn á upplýsingum. Fyrirtækið vinni að því að mæta þessum kröfum, og skoði nú dóminn áður en næstu skref verða tekin.

Facebook hlaut dóm á Ítalíu í desember þar sem fyrirtækinu var gert að greiða 10 milljónir evra vegna meðhöndlunar fyrirtækisins á gögnum.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV