Göngustígar í molum eftir rysjótta tíð

26.02.2018 - 14:58
Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Jóhannsson
Göngustígur við Seljakirkju í Breiðholti er illa farinn eftir rigningar. Hann virðist hafa farið í sundur í úrhellinu sem varð á höfuðborgarsvæðinu fyrir helgi. Bjarni Brynjólfsson, upplýsingastjóri hjá Reykjavíkurborg segir ekki ólíklegt að tjón hafi orðið á fleiri samgöngumannvirkjum vegna veðursins.

Vatn virðist hafa fundið sér leið undir malbikaðan stíg við Seljakirkju í Breiðholti og rutt fleiri tonnum af möl og sandi undan stígnum með þeim afleiðingum að hann er skemmdur á löngum kafla.

Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Jóhannsson

 

„Það hafa verið um helgina gríðarlega miklar leysingar og mikið um að vera og þurfti að loka meðal annars á nokkrum stöðum bara út af vatnselg. Það varð talsvert tjón þarna í Seljadalnum," segir Bjarni Brynjólfsson. 

„Væntanlega hefur orðið eitthvað fleira tjón. Þetta voru dálítið sérstakar aðstæður. Það flæddi líka talsvert niður af Hólmsheiðinni niður í hesthúsahverfið fyrir ofan Norðlingaholtið. Þar fór vegur í sundur og flæddi inn í hesthús og enn unnið að viðgerðum," segir Bjarni.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Hannes Jóhannsson

Reykjavíkurborg óskar eftir að íbúar borgarinnar sendi ábendingar um holur sem myndast hafa í malbiki að undanförnu. Segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að slíkt geti gerst í rysjóttri tíð. Viðgerðir á holum sem valdið geta slysi eða tjóni á ökutækjum verða settar í hæsta forgang og gert við þær eins skjótt og mögulegt er.

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi