Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Göngumanni bjargað á Ölkelduhálsi

19.01.2011 - 12:44
Rammvilltum og gegnköldum göngumanni var bjargað við Ölkelduháls norðan Hveragerðis í gær. Hann hafði legið úti um nóttina og hending réð því að hann rakst á fjóra menn sem komu honum til bjargar.

Gísli Már Gíslason líffræðiprósfessor og þrír erlendir starfsfélagar hans voru við sýnatöku í heitum læk í austanverðum ölkelduhálsi um hádegisbil í gær þegar þeir gengu fram á erlendan ferðalang. „Hann biður um hjálp og ég kem honum inn í bíl. Þá var hann allur orðinn blautur, hafði ekki getað rennt að sér jakkanum sem var orðinn mjög þungur og allur í klaka. " Gísli  hitaði bílinn, og gaf honum kaffi og eitthvað að borða. Þá fór hann að hressast aðeins og skjálfa. Maðurinn tjáði Gísla að hann hefði verið úti alla nóttina. Hann hafði farið í göngutúr og síðan villst. Þegar myrkrið skall á gróf hann sig í fönn. „ Ég þurfti að þýða skóna af honum sem voru frostnir við sokkana og buxurnar. Svo ég náði þeim ekki strax af til að sjá hvort hann væri kalinn, sem hann var ekki,“ sagði Gísli.


Gísli hringdi í lögreglu og varð úr að fjórmenningarnir óku mannininum til Reykjavíkur þar sem hann er búsettur.