Góðar og slæmar fréttir í sjávarútvegi

Mynd með færslu
 Mynd: www.svn.is
Horfur er á að útflutningur sjávarafurða aukist um sjö og hálft prósent í ár frá í fyrra að mati Seðlabankans. Í maí nam verðmæti sjávarafla íslenskra skipa 11,6 milljörðum króna og jókst frá því í fyrra samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ekki eru eins góð tíðindi af makrílnum samkvæmt niðurstöðum makrílleiðangurs. Mun minna er af honum við Ísland en áður og mest er af honum við Noreg. 

Í Peningamálum Seðlabankans sem út komu í gær segir að vöxtur í útflutningi sjávarafurða sé sá mesti síðan 2013 og meiri en bankinn spáði í maí sem skýrist af meiri veiði á fyrri hluta ársins og auknum botnfiskkvóta á fiskveiðiárinu sem hefst á laugardaginn. 

„Þetta eru að sjálfsögðu jákvæðar fréttir. Svo það sem maður tekur jákvætt út úr þessu er auðvitað að við erum að sjá þarna mesta vöxt sem mælst hefur 2013. Hins vegar verður auðvitað að geta þess að á árinu 2011 til 2016 var útflutningsverðmæti töluvert meira þannig að við erum ekki búin að ná þeim hæðum sem að þá voru í útflutningsverðmætum.En þetta er á réttri leið myndi ég segja,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Eru fyrirtækin að fá nægilega hátt verð fyrir vöruna?

„Það er auðvitað allur gangur á því og kannski erfitt að alhæfa um allar tegundir. Við erum að sjá lítilsháttar verðhækkanir en síðan eru aðrir markaðir erfiðir“.

Hagstofan birti í morgun tölur um aflaverðmæti í maí sem námu 11,6 milljörðum króna, sem er fjórum og hálfu prósenti meira en í fyrra. 

Tap hjá HB Granda

Eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, HB Grandi, birti uppgjör annars ársfjórðungs í morgun, þar sem tap var á rekstrinum en þó er hagnaður hjá fyrirtækinu á fyrri helmingi ársins. Heiðrún Lind segir að árferðið í sjávarútvegi sé erfitt þótt útflutningstekjur hafi mögulega aukist: 

„Gengið er ennþá tiltölulega sterkt og það er auðvitað stærsti áhrifaþátturinn. En síðan auðvitað miklar fyrirsjáanlegar og hafa verið miklar launahækkanir, hækkun olíuverðs, há veiðigjöld, allt eru þetta stórir kostnaðarliðir í rekstri útgerða og þetta er auðvitað það sem hefur áhrif á uppgjör félaganna myndi ég telja“. 

Makríllinn hallar sér til Noregs

Niðurstöður úr sameiginlegum uppsjávarleiðangri Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana voru birtar á vef Hafrannsóknarstofnunar í gær. Útlitið er ekki gott í makrílnum. Vísitala lífmassa makríls er 40 prósentum minni en í fyrra og 30 prósentum lægri að meðaltali en síðustu fimm ár. Þéttleiki makríls mældist mestur í Noregshafi en mun minni á hafsvæðinu við Ísland og minni en  undanfarin ár. Norsk íslenska síldin mældist talið í vísitölu lífmassa fjórðungi minni í ár en í fyrra. Niðurstöðurnar voru kynntar hjá Alþjóðahafrannsóknarráðinu í gær. Þær eru notaðar ásamt öðru hjá ráðinu til þess að birta ráðgjöf um kvóta í makríl, síld og á kolmunna. Heiðrún Lind segir ótímabært að ráða í þessar niðurstöður. Kvótaráðgjöfin verður birt 28. september. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi