Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Góðærið hefur ekki náð til allra

12.09.2018 - 20:09
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Logi Einarsson, þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, ræddi um jöfnuð í ræðu sinni í umræðum eftir stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld. Hann sagði blikur á lofti og að ýmislegt bendi nú til þess að leiðin liggi aftur niður dal eftir langa dvöl á tindi hagsveiflu.

Logi gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki nýtt svigrúm undanfarin ár til að jafna kjör og auka félagslegan stöðugleika. „Það þarf ekki sterka raunveruleikatengingu til að sjá að góðærið hefur ekki náð til allra. Stór hópur fólks upplifir það í besta falli gegnum meðaltöl, glanstímarit eða fréttir af launahækkunum tekjuhárra, meðal annars okkar,“ sagði Logi í ræðu sinni. 

Ungt fólk hefur ekki notið uppgangs síðustu ára, að dómi Loga. Blása þurfi til sóknar í húsnæðismálum og tryggja tekjulágu fólki hagkvæmar íbúðir. Þá sagði hann brýnt að hækka barna- og húsnæðisbætur meir og draga úr skerðingum og lengja fæðingarorlof.

Í tengslum við fréttir af gengi krónunnar undanfarið sagði hann nauðsynlegt að vinna að upptöku evru með inngöngu í Evrópusambandið. Þá bar EES samninginn einnig á góma í ræðu Loga. „Við höfum mikla hagsmuni af alþjóðlegu samstarfi og getum ekki leyft þjóðernispopúlískum röddum að stefna EES samningnum í uppnám. Enginn samningur hefur fært okkur meiri velsæld og tækifæri.“

Hægt er að hlusta á ræðuna í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir