Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Góð reynsla af gjaldtöku fyrir salernisaðstöðu

23.05.2016 - 17:02
Mynd með færslu
 Mynd: Friðrik Jakobsson - RÚV
„Reynslan af þessu er nokkuð góð,“ segir eigandi salernisaðstöðu við Dimmuborgir. Borga þarf 200 krónur inn á klósettið, en aðgangshliðinu er tölvustýrt og nákvæmlega er fylgst með því hve margir borga sig inn. Alltaf eru þó einhverjir sem reyna að svindla sér inn og fá jafnvel hjálp frá leiðsögumönnum til þess.

„Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn taka þessu vel. Fólk kemur þarna inn með ákveðnu viðhorfi og veit að vegna þess að það þarf að borga, þá er þessu vel viðhaldið. Auðvitað kemur þó fyrir að eitthvað verði skítugt, en aldrei mjög lengi,“ segir Friðrik Jakobsson, sem rekur kaffihúsið Kaffi Borgir við Dimmuborgir. Salernisaðstaðan og húsnæðið utan um kaffihúsið er í eigu Dimmuborga ehf., sem leigir landspildu af Landgræðslunni sem á Dimmuborgir. Rekstur aðstöðunnar er í höndum Kaffi Borga, en í staðinn fá viðskiptavinir þess aðgang að klósettinu þegar þeir versla veitingar. Friðrik segir að þessi aðstaða sé bylting, en hún var tekin í notkun sumarið 2014.

Mynd með færslu
 Mynd: Friðrik Jakobsson - RÚV

Eins og hver annar rekstur

Einn eigenda Dimmuborga ehf., Sigmar Stefánsson, segist líta á á rekstur aðstöðunnar sömu augum og annan rekstur. Markmiðið sé að hann standi undir sér og skapi eigendum tekjur. Ekki hefur þó farið mikið fyrir tekjum enn sem komið er, en reksturinn hefur gengið ágætlega.

„Ef þetta væri auðvelt, þá væri þetta ekkert gaman,“ segir Sigmar. Hann segir það erfitt að vera frumkvöðull í þessum málum og segir að svona eigi að setja upp sem víðast.

„Það er erfitt að fá fólk til að borga í fyrstu og fá kerfið til að virka, en svo hættir það. Þetta verður auðveldara og auðveldara með hverju árinu. Eins og er þá fara tekjurnar í það að greiða niður húsnæðið og reksturinn. Síðar meir færi hagnaðurinn í reksturinn á svæðinu okkar þarna,“ segir Sigmar.

Mynd með færslu
Salernisaðstaða í Dimmuborgum.  Mynd: Friðrik Jakobsson - RÚV

Fólk reynir alltaf að svindla

Hann segir að á fyrsta árinu hafi verið talsverð vandræði með fólk sem svindlaði sér inn. „Það var ótrúlegt hvað fólk lagði á sig til að borga ekki, það skreið undir hliðið eða klifraði yfir það og festist jafnvel. Svo lentum við í því að leiðsögumenn voru að halda hurðunum opnum og það er ekki alltaf borin virðing fyrir þessu,“ segir Sigmar.

Aukningin hefur þó verið veruleg á milli ára. Í dag, 23. Maí, hafa 120 manns borgað fyrir aðgang að aðstöðunni. Á sama degi í fyrra voru þeir 65. Hafa verður í huga að þegar þessi grein er rituð, er deginum alls ekki lokið. Sama á við um tímabilið 16.-25. Maí. Í fyrra voru viðskiptavinir 619 á þeim tíma, en í ár eru þeir orðnir 1113 og vikunni er ekki lokið.

„Þetta er bara rekstur eins og hver annar í mínum huga. Við höfum Dimmuborgir sem auðlind og þegar fjöldi gesta nær ákveðnu viðmiði, þá greiðum við auðlindagjald til Landgræðslunnar. Það hefur ekki gerst en mun gerast, ég vonast auðvitað til þess að ná þeim fjölda sem til þarf svo hægt sé að hámarka arðsemi fjárfestingarinnar,“ segir Sigmar.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

„Þetta mun ganga upp“

Hann segist hafa heyrt af áhuga annarra en segir að oft vanti kjarkinn til að fara af stað með slíkan rekstur. Þá telur Sigmar að það gangi illa upp að vera með slíka stöð mannlausa. Fylgjast þurfi með tölvubúnaði og eins þarf viðhald að vera stöðugt. Það gæti þó munað um að fleiri borgi sig inn þegar starfsmaður hefur fasta viðveru, í stað þess að fólk reyni að svindla.

„Heilt yfir þá er ég ánægður með reynsluna af þessu. Þetta er tilraun sem við fórum í sjálf og við höfum ekki sótt um neina styrki úr sjóðum eða neitt slíkt. Ég hef verið með þann draum að þetta geti borið sig sjálft, ef það gerir það ekki á þessu svæði þá veit ég ekki hvar annars staðar það ætti að gera það. Þetta mun ganga upp og var í raun mjög nálægt því í fyrrasumar,“ segir Sigmar.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV