Góð leið til að hætta að horfa á Netflix

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV

Góð leið til að hætta að horfa á Netflix

01.10.2018 - 19:26

Höfundar

Þetta hjálpaði mér bæði að hætta að glápa á Netflix heilu kvöldin og komast hjá því að hitta fólk sem mig langaði ekki að hitta, segir ung kona sem semur eitt lag á dag og birtir á vefnum Youtube. Hún ætlar að halda tónsmíðunum áfram þangað til lögin fylla heilt ár.

Hanna Mia Brekkan, nemi í tónsmíðum við Listaháskólann, er að flýta sér heim til sín því hún hefur verk að vinna. 

„Ég er að semja eitt lag á dag í eitt ár,“ segir Hanna.

Lögin birtir hún svo daglega á Youtube undir listamannsnafninu Mill.

„Hugmynd kviknaði þegar ég sótti um Visa til að geta spilað í New York og það var mjög erfitt að fá listamanna-visa ef maður var ekki með greinar sem var búið að skrifa um tónlistina,“ segir Hanna.

Hún hefur alla sína ævi búið erlendis en á íslenska móður. Hanna ákvað að finna upp á einhverju sem gæti kveikt áhuga þeirra sem skrifa um tónlist.

„Þannig byrjaði þetta. En svo er ég núna að fatta hvað þetta er ótrúlega gott fyrir mig sem tónskáld. Ég læri ótrúlega mikið um að semja og nota mismunandi hljóðfæri, bara ekki gagnrýna sjálfa mig of mikið. Prófa að gera eitthvað án þess að það þurfi að vera fullkomið,“ segir Hanna.

Og þetta er Hanna búin að gera á hverjum degi í rúmlega hundrað daga en það hefur ekki gengið átakalaust fyrir sig.

„Allt í einu þurfti ég að breyta lífinu. Ég hafði ekki tíma til að horfa á Netflix heilt kvöld af því að ég þurfti að semja. Það varð einfaldara að hætta við hluti sem fá mig til að líða illa. Það var einfaldara að segja nei við fólk sem mig langaði ekki að hitta og segja nei við verkefnum sem mig langaði ekki að gera,“ segir Hanna.

Hugsarðu aldei: Guð minn góður, það eru 200 lög eftir?

„Ég hugsa oft: Hvað ertu að gera? En svo er þetta alltaf þægilegt þegar ég er búin að semja. Það er oft erfitt en svo gefur það mér líka bara mjög mikið,“ segir Hanna.

Og þú hugsar aldrei: bíddu þetta er eitthvað kunnuglegt, mér finnst ég hafa heyrt þetta áður?

„Ég hef frekar gott minni með tónlist, svo ég veit oft strax ef ég er búin að semja eitthvað svipað,“ segir Hanna.

Til að byrja með voru margir sem efuðust um að Hanna næði takmarki sínu.

„Ég held að eftir lag sextíu hafi fólk byrjað að trúa því að ég myndi halda áfram,“ segir Hanna.

Eitt lagið flutti Hanna ásamt hópi fólks í Mengi.