Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gluggi inn í daga sem einkennast af bið

Mynd: RÚV / RÚV

Gluggi inn í daga sem einkennast af bið

18.11.2017 - 10:00

Höfundar

„Við eigum okkur öll sögu og ég tel að hælisleitendur eigi sér merka sögu, “ segir Yusuf Sert, hælisleitandi og einn myndasmiða á ljósmyndasýningunni Bið sem nú stendur yfir í Andrými í Iðnó. Á sýningunni sjást brot úr daglegu lífi flóttamanna á Íslandi á ljósmyndum sem þeir tóku með snjallsímamyndavél. Markmið er meðal annars að rjúfa félagslega einangrun hælisleitenda og virkja þá til að skrásetja tilveruna á Íslandi.

Tilvera þeirra sem bíða afgreiðslu umsóknar um alþjólega vernd er að einhverju leyti fábrotin, enda einkennist hún af bið auk þess sem fæstir hafa mikið fyrir stafni. Verkefnisstjórinn, Ragnar Visage, sagði að tilgangurinn hefði verið að festa einmitt það daglega líf á filmu.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Visage verkefnisstjóri sýningarinnar.

Myndasmiðirnir hafi hins vegar fyrst hikað við að birta þær hliðar daglegs lífs. „Það tók okkur nokkra mánuði að finnast vera í lagi að mynda aðstæður sem eru kannski ekkert voðalega fallegar. Þeir voru alltaf að spyrja: „Má þetta?,“ „Má sýna ljótleikann?,“ „Má sýna að klósettið okkar sér brotið og ruslahaugar fyrir aftan íbúðirnar okkar?“ Þetta er glugginn,“ segir Ragnar.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Myndasmiðirnir Sathiya Rupan N. og Yusuf Sert.

 

Yusuf segir þemað í sínum ljósmyndum vera hið mannlega og samhygð með fólki, en hann starfaði áður sem kennari í heimalandi sínu, Tyrklandi. „Manneskjan er mikilvæg og örlög hennar eru það líka. Ég get ekki haldið mig við stutta frásögn um persónuna,“ segir hann. Annar myndasmiður, Sathiya Rupan N. er frá Sri Lanka og starfaði áður sem ljósmyndari. Hann segir það hafa verið áskorun að vinna með takmarkanir snjallsímamyndavélar. „Það komu upp ákveðin tæknileg vandamál af því að við getum ekki tekið myndir þegar engin birta er og maður hefur ekki stjórn á neinu. Það fylgja því ýmsar takmarkanir. Svo að við þurftum að taka myndirnar innan þessara marka,“ segir hann.

Að sögn er afhjúpar myndefni sýningarinnar veruleika sem er fæstum Íslendingum kunnugur. „Við skyggnumst inn í þeirra heim. Hverjar eru þeirra aðstæður, hvar þeir búa, hvað þeir gera frá degi til dags meðan þeir eru að bíða hérna á Íslandi. Þetta er afraksturinn af því, við fáum aðeins að gægjast inn í þeirra heim.“

Sýningin er samstarfsverkefni Rauða krossins, Borgarbóksafns og Borgarsögusafns Reykjavíkur.