Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Glitnir greiðir 23 milljónir í málskostnað

18.06.2013 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Deutsche Bank AG af kröfum slitastjórnar Glitnis. Slitastjórnin krafðist þess að skuldajöfnuður sem þýski bankinn lýsti yfir í desember 2008 væri riftanlegur. Slitastjórnin var jafnframt dæmd til að greiða allann málskostnað eða tæpar 23 milljónir.

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að ekki hafi verið höfð uppi mótmæli við málskostnaðaryfirliti þýska bankans. Þar segir meðal annars að bankinn hafi þurft að leggja út rúmar 15 milljónir íslenskra króna vegna starfa erlendra lögfræðinga, tæpar 900 þúsund krónur vegna þýðinga og þá sagði Deutsche Bank AG að kostnaður vegna lögmannsþjónustu á Íslandi næmi rúmum 20 milljónum íslenskra króna.

Málið snýst um skuldajöfnun á eftirstöðvum afleiðusamnings sem Glitnir og Deutsche Bank AG gerðu í maí 1998  og lausafjársamningi uppá einn milljarð evra sem bankarnir gerðu í byrjun árs 2008.  

Fram kemur í dómi héraðsdóms að þýski bankinn hafi skuldað rúmar 26 milljónir evra vegna afleiðusamningsins. Ákvæði í lausafjársamninginum gerði það aftur á móti að verkum að Deutsche Bank AG gat krafist þess að heildarþóknun vegna samningsins yrði að greiða tafarlaust ef breyting yrði á yfirráðum Glitnis. . 

Skuld Glitnis vegna lausafjársamningsins nam rúmum fjórtán milljónum evra sem Deutche Bank ákvað að nota til að lækka skuld sína við Glitni. Eftir skuldajöfnunina nam skuld þýska bankans því tólf milljónum evra. Þetta sætti skilanefndin sig ekki við og skaut málinu til dómstóla sem í dag sýknaði Deutsche Bank AG af kröfum slitastjórnar Glitnis.