Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Glíma við bæði fíkn og geðsjúkdóm

14.08.2018 - 21:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fólk sem glímir við bæði fíkn og geðsjúkdóma stendur höllum fæti og mætir víða fordómum. Fjölga þarf spítalaplássum, búsetu- og meðferðarúrræðum til að mæta þessum hópi. Þetta segir framkvæmdastjóri Geðhjálpar. Maður í neysluvanda, sem greindur er með geðklofa, hefur ítrekað verið sendur heim af Sjúkrahúsinu á Akureyri eftir að hafa beðið um að vera lagður inn á geðdeild. Aðstandandi mannsins lýsti því í kvöldfréttum RÚV að hún væri örmagna yfir skorti á úrræðum.

Mæta fordómum frá almenningi og fagfólki

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir að staða fólks með þennan tvíþætta vanda sé vægast sagt slæm. „Þetta fólk stendur höllum fæti, það er skortur á úrræðum og það er skortur á þjónustu. Svo mætir þessi hópur miklum fordómum bæði meðal almennings og því miður líka sumra úr hópi fagfólks,“ segir Anna.

Fimmtán pláss en átján sjúklingar

Utan Akureyrar valdi skortur á starfsfólki því að lítil geðheilbrigðisþjónusta sé á landsbyggðinni. „Fólk kannski flytur til Akureyrar eða Reykjavíkur þar sem helst er von á að sé einhver þjónusta,“ segir Anna. „Svo fer það eftir efnahag þessara smáu bæja hvers þeir eru megnugir.“

Hún segir að fleiri pláss vanti á geðdeildir bæði í Reykjavík og á Akureyri, til að mynda séu fimmtán pláss á Landspítalanum þar sem alla jafna séu átján sjúklingar. Þá þurfi að fjölga búsetu- og meðferðarúrræðum. „Það þarf mikla natni, fagmennsku og svo þarf auðvitað fjármuni til að ganga í þetta mál,“ segir hún.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV