Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gleymda stríðið í Jemen

08.12.2016 - 18:34
epa05664340 A picture made available on 07 December 2016 shows a displaced girl carrying her sister near makeshift shelters at a camp for Internally Displaced Persons (IDPs) on the outskirts of Sana’a, Yemen, 06 December 2016. According to UN figures, the
 Mynd: EPA
Tæplega tveggja ára styrjöld í Jemen hefur kostað yfir tíu þúsund mannslíf og hrakið milljónir á flótta. Það segir þó aðeins hálfa söguna því áður en ófriðurinn braust út lifði annar hver Jemeni undir fátæktarmörkum og milljónir barna voru vannærðar. Með gleymda stríðinu í Jemen hefur neyð jemensku þjóðarinnar aukist til muna.

Styrjöldin í Jemen er bæði tilganglaus og illskiljanleg eins og stríð jafnan eru. Hún á rót í áralöngum átökum skæruliða Hútí-hreyfingarinnar úr norðurhluta landsins og stjórnvalda.

Í mars í fyrra, þegar Hútí-liðar höfðu náð stórum hluta landsins á sitt vald, byrjaði vargöldin fyrir alvöru þegar Sádi-Arabar og nokkrar bandalagsþjóðir hófu loftárásir. Fleiri ríki hafa blandað sér í ófriðinn með óbeinum hætti, til dæmis styðja Bandaríkin stjórnarherinn og Íranar eru sakaðir að aðstoða Hútí-liða. Sprengjurnar eira engum og mörg dæmi eru um að skólar og sjúkrahús hafi verið lögð í rúst.

Það eru ekki síst börnin sem verða illa úti í ófriðnum. Sameinuðu þjóðirnar telja að af þeim tíu þúsund sem hafa látið lífið vegna átakanna, séu yfir þúsund á barnsaldri. Fjölmörg börn eru líka í hópi þeirra fjörutíu þúsund sem hlotið hafa sár. Þrjár milljónir borgara hafa orðið að yfirgefa heimili sín.

Áður en stríðið braust út voru aðstæður í Jemen þegar mjög slæmar en hvergi í arabaheiminum er fátækt jafn mikil. Þá var yfir helmingur þjóðarinnar undir fátæktarmörkum, mun færri börn gengu í skóla en í grannríkjunum og barnadauði var afar mikill - eitt af hverjum tuttugu börnum lést fyrir fimm ára aldur. Með stríðinu hefur sigið enn á ógæfuhliðina.

Jemen er mjög háð innflutningi á matvælum en vegna hafnbanns eru aðföng af skornum skammti og verðlag hefur snarhækkað. Afleiðingin er sú að af 27 milljónum íbúa landsins eiga fjórtán milljónir erfitt með að brauðfæða sig, þar af býr helmingurinn við sáran matarskort.

Vannæring barna er orðin sérstaklega þungbært vandamál og var þó ærið fyrir. Milljónir jemenskra barna fá ekki nóg að borða, þar af er hálf milljón svo alvarlega vannærð að líkamsþyngd og hæð þeirra er langt undir eðlilegum viðmiðum.

Sameinuðu þjóðirnar, sem segja algert hamfaraástand ríkja í Jemen, hafa farið fram á að ríki heims leggi til 177 milljarða króna vegna þeirra tíu milljóna Jemena sem þurfa á neyðaraðstoð að halda. Aðeins um helmingur þeirrar upphæðar hefur safnast. Tómlætið gagnvart borgarastyrjöldinni í þessu fátæka ríki er sláandi - það er ekki að undra að hún sé æ oftar kölluð gleymda stríðið.