Gleyma að mæta í bólusetningar með börn sín

05.09.2018 - 12:13
Skjáskot
 Mynd: RÚV
Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að gera bólusetningar skilyrði fyrir inntöku barna í leikskóla var felld í borgarstjórn í gærkvöld. Sóttvarnarlæknir segir að gripið hafi verið til aðgerða til þess að auka hlutfall bólusettra barna - en lausnin felist helst í bættu verklagi hjá heilsugæslunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að bæta þurfi skráningu á bólusetningum því stundum gleymist að skrá inn í kerfið þegar barn hefur verið bólusett.  Hann segir að það komi fyrir að bólusetningin sé færð inn á bólusetningarskírteini en svo gleymist að færa það inn í rafræna kerfið. Verið sé að vinna í að bæta það þannig að ekki muni verða hægt að loka skrá barns án þess að færa inn upplýsingar um bólusetningar.

„Í öðru lagi þarf að bæta innköllunarkerfið, það er að segja ef barn hefur ekki mætt í bólusetningu þá verði það sérstaklega merkt í kerfinu og auðveldi þannig heilsugæslunni að ná til þessara foreldra,“ segir hann.

Í þriðja lagi verði reynt að fá betri mynd af þeirri raunverulegu íbúaskrá sem sé í gildi þannig að heilsugæslan sé með rétta skrá af fólkinu sem býr á svæðinu. Komið hafi upp tilvik þar sem ekki er hægt að hafa upp á barni á skrá sem er þá að öllum líkindum flutt úr landi.

Þórólfur segir að þáttaka í bólusetningum barna á fyrsta ári og á grunnskólaaldri sé um níutíu og sjö prósent, sem sé viðunandi. Á þeim aldursskeiðum sé bólusett í ungbarnaeftirliti annars vegar og hins vegar í heimsóknum í grunnskóla. Vandinn einskorðist við börn á leikskólaaldri þegar ábyrgðin liggi fyrst og fremst hjá foreldrum sem þurfi sjálf að panta tíma í bólusetningar. Rætt hafi verið um að breyta því, að fólki sé gefið tími og það síðan minnt á og kallað inn aftur ef það mætir ekki. „Ég held að það sé stór hluti sem gleymi hreinlega að koma. Við erum ekki að tala svo mikið um foreldra sem neita að mæta og vilja ekki mæta, það er kannski tvö prósent af foreldrum þannig að við erum á þessu stigi ekki að eyða miklu púðri í þann hóp,“ segir Þórólfur.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi