Glerárvirkjun II sett í gang

05.10.2018 - 18:10
Glerárvirkjun II var gangsett í dag. Virkjunin getur séð fimm þúsund heimilum á Akureyri fyrir rafmagni og um leið fjölgar útivistarmöguleikum í Glerárdal. 

Framkvæmdir við nýja virkjun Fallorku í Glerá hófust fyrir tveimur árum. Í Glerárdal, í um 300 metra hæð yfir sjó, hefur nú verið gerð sex metra há stífla og eins hektara inntakslón. „Hér rennur vatnið inn í pípu og fer alveg sex kílómetra leið niður á Akureyri. Þar er stöðvarhús og þar er vélin sem býr til rafmagnið og svo er það sent með vírum inn á rafmagnskerfi Akureyrar,“ segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku. 

Munar um minna

Afl virkjunarinnar er 3,3 megavött, sem nægir fimm þúsund heimilum, eða álíka mörgum rafbílum, á ársgrundvelli. „Og á meðan við búum við slæmar tengingar hérna inn á Eyjafjarðarsvæðið, þá munar um svona virkjun,“ segir Andri. 

Fjöldi fólks var samankominn í nýju 150 fermetra stöðvarhúsi í dag, þegar virkjunin var formlega sett í gang. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, er hæstánægð með virkjunina. „Þetta er eitt skref í þá átt að bæta raforkuöryggi hjá okkur. Eitt lítið skref, það þarf meira, en þetta er þó skref í þá átt,“ segir Ásthildur. 

Stærri vél en reiknað var með

Kostnaður hleypur á 1,3 milljörðum króna, um 200 milljónum umfram áætlanir. Byggja þurfti stærra hús en reiknað var með til að koma vélinni fyrir, enda er hún mjög stór og talin afar fullkomin. Vélin tekur inn vatn á sex stöðum og stjórnar þannig streymi betur en ella. 

Framkvæmdum fylgdi mikið rask, en leggja þurfti þrýstipípu í viðkvæma jörð á sex kílómetra kafla. „En við sáum strax í sumar að það var búið að gróa yfir pípuna og kanta meðfram veginum og svoleiðis, þannig að ég held þetta muni jafna sig mjög vel,“ segir Andri. 

Betra aðgengi að Glerárdal

Þá var tækifærið nýtt til að leggja nýjan göngu- og hjólastíg ofan á pípuna, sem er langt kominn, og styttist í að göngubrú verði reist yfir stífluna. Þannig opnast hringleið um dalinn. „Megin markmiðið var náttúrulega að fá rafmagn fyrir Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið sem sárvantar rafmagn, en í leiðinni fáum við gott útivistarsvæði,“ segir Andri. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi