Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Gleðileg hipsterajól

Mynd: enginn / Netið

Gleðileg hipsterajól

24.11.2016 - 15:41

Höfundar

Hipsterar í Betlehem komu við sögu í fimmtudagspistli Sigurbjargar Þrastardóttur í Víðsjá, 24. nóvember 2016. Sigurbjörg var á útiskónum að vanda og pistillinn svohljóðandi:

 

„Góðir hlustendur, ég ætla að segja ykkur í dag frá hipsterum í Betlehem, en áður en ég geri það verð ég að leiða einhvern veginn inn í söguna. Byrjum á þessu:

Þegar ég var átján ára dvaldi ég um jól hjá kaþólskri fjölskyldu á Ítalíu og lærði þá að það sem Ítalir kalla presepe eða presepio er yfirleitt hryggjarstykkið í jólaskreytingum á hverju heimili þar syðra. Presepio er sena í þrívídd af fjárhúsinu í Betlehem, fæðingarstað Jesú, ásamt tilheyrandi persónum og umhverfi að eigin vali, sem gerir myndina fyllri og fegurri. Ég man eftir því að hafa föndrað fossandi fljót úr bláum glanspappír, hengt jólaseríu yfir heimatilbúna fjárhúsið, eitthvað var gert úr bómull, ætli það hafi ekki verið þakskegg, og svo framvegis. Í kirkjum og skólum þar ytra gefur oft að líta umfangsmiklar fæðingarsenur á aðventu, tálgaðar, klipptar, leiraðar, og í Þýskalandi hef ég séð safn fæðingarsena frá ýmsum tímum listasögunnar og alúðin sem gjarnan er lögð við smáatriði á borð við fatnað og stjörnur er aðdáunarverð. Á Ítalíu varð ég líka eitt árið vitni að lifandi presepe á heilu fjalli – þar sviðsettu bæjarbúar gamlar hefðir og handverk, bökuðu brauð í eldofnum og hömruðu járn á steðja meðfram hlykkjóttum stíg sem endaði í helli þar sem Jósep, María og Jesúbarnið – sem leikið var af dúðuðu stúlkubarni – blöstu við í hinni heimsþekktu senu; barn í jötu borið var.

Ekkert af þessu var í huga mér þegar ég rakst á hipsterajötuna á internetinu um daginn, en á endanum þurfti ég samt að gera þennan samanburð í huganum, til þess að færast nær skilningi á því að sumir taka ekki gríni sem gríni, þeir taka ekki ádeilu sem ádeilu, heldur þurfa alltaf að hafa síðasta orðið.

 

Jósep með man-bun og iPhone

Handgerðu samtímajötunni brá sumsé fyrir á tölvuskjánum hjá mér, ásamt fylgihlutum, og leiddi inn á síðu sem heitir If it’s Hip, it’s Here. Þetta eru ekki beinlínis leikföng, heldur styttur, ætlaðar til þess að stilla upp á arinhillu eða innskotsborð á aðventu – samt eins ójólalegar og hugsast getur. Það nægir að segja að vitringarnir eru mættir á Segway-farartækjum með gjafir handa frelsaranum í kössum frá Amazon Prime – og þið skiljið húmorinn um leið.

Og þá er auðvitað ekki allt upp talið: Fjárhúsið í Betlehem er búið sólarsellu og 100% lífræn kusa japlar á glúteinlausu fóðri. Hjá henni er lamb í prjónaðri rauðri peysu, jólapeysu, og fjárhirðirinn heldur á spjaldtölvu, með hvít heyrnartól leidd í bæði eyru. Hann er klæddur eins og nútímamaður, í gallabuxur og bol, og er að sjálfsögðu með athyglina á spjaldtölvunni, en ekki hinum heimssögulega viðburði. Vitringarnir fylgja líka nýjustu hipstera-tísku, berfættir í skónum, í aðsniðnum fatnaði, og Jósep sjálfur er með hnút í hnakkanum, svokallaðan man-bun. María er með rautt naglalakk. Og á hverju ætli hún haldi? Jú, Starbucks-kaffi í götumáli, nema hvað! Með hinni hendinni gefur hún afslappað pís-merki og duck-fésið er á sínum stað, enda er Jósep tilbúinn með snjallsímann á lofti; hann er að taka selfí af sér, Maríu og barninu, sem kórónar blygðunarlausa ádeiluna á sjálfhverfan, tæknióðan og tískumiðaðan samtímann, sem er það sem hipstera-Betlehem-settinu er einmitt ætlað að gera.

Þetta er ádeila, paródía, góðlátlegt grín. Skemmtileg smekkleysa. Eða það heldur maður þangað til kommentin koma í ljós.

 

Útskýrður og/eða leiðréttur húmor

Fyrsta komment lesanda á bloggsíðunni If it’s Hip, it’s Here, er einfalt: „Ekki hipp, ekki kúl, ekki einu sinni aðlaðandi.“ Ein þeirra sem heldur úti síðunni, Laura Sweet, kann ekki við annað en að svara og biður viðkomandi lesanda afsökunar, kunni hann að hafa móðgast: „Þetta er síða sem krefst þess stundum að maður taki hlutunum létt, þetta er eitt þeirra skipta,“ skrifar Laura varlega og bætir við að sjálfur „gaurinn á efri hæðinni“ flissi örugglega líka yfir þessu, en auðvitað sé samband fólks við trú ólíkt. Vinaleg tilraun jú, en um leið hefur fleira fólk slegist í kommentahópinn, ýmist til að útskýra húmorinn lið fyrir lið, eða benda á trúboðið sem felst, eða felst alls ekki, í styttunum, sem kosta 129 dollara settið, netleiðis. Maður er strax orðinn pínulítið lúinn. Og ég ætla ekki einu sinni að reyna að hafa eftir umræðuhalann á fésbókarsíðu bloggsins, kommentin þar eru á fjórða þúsund; hipstera-Betlehem virðist fá falleinkunn hjá strangtrúuðum sem fá að sínu leyti falleinkunn frá öðrum fyrir húmorsleysi, o.s.frv. „Halló, grínið beinist að tíðarandanum, ekki trúnni,“ segir einhver, en hefur ekki erindi sem erfiði. „En það er mjög tillitslaust að hafa í flimtingum eitthvað sem fólki er heilagt,“ segir annar og kemst ekkert í hringiðunni heldur.

Í stað þess að brosa út í annað og halda áfram bjástri dagsins, fyllist maður þannig fljótlega leiða yfir hinum eilífu og oft og tíðum árangurslausu skoðanaskiptum í kommentakerfum veraldarinnar, þar sem einum of margir virðast koma að borðinu með fyrirfram mótaðar hugmyndir, einum of margir aðrir hafa takmarkaðan skilning á bakgrunni eða erindi annarra, stökkva upp á nef sér án ígrundunar – eða, reyna að útkljá alvarleg, viðkvæm eða jafnvel fullkomlega óþörf deiluefni með vonnlænerum sem hvorki fylgja svipbrigði, augnaráð né raddblær. Fyrir nú utan hvað það er sérkennilegt að sjá áhugaverð umtalsefni smættuð niður í sömu nöldurkvörnina alla daga. „Þessi ævintýralega kommentaflækja er besta ádeilan á samtímann,“ hugsar maður þá kannski með sér og ákveður að taka ekki þátt – samt tekur maður þátt með því að lesa (og hneykslast).

 

Allt fer …

Mér finnst Jósep með snúð í hárinu og snjallsímann á lofti fyndin mynd, hún er óvirðuleg en um leið oddhvöss – frelsarinn er fæddur og ég ætla að setja það á Snapchat, græða nokkur hjörtu – hvort sem viðburðurinn er stærri en ég eða minni en ég ætla ég að sýna ókunnugum vinum mínum hann á 6 sekúndum og svo hverfur hann.

Það þarf líklega fræðilega ráðstefnu til þess að útkljá hvort þetta gangi lengra eða styttra en popplag um Jesúbarnið, eða hvort sköpunargleði almennings sé einmitt ástæða þess að fjárhúsahefðin lifi – ég veit bara að snapp-lögmálið nær yfir hipsterastytturnar frá Betlehem; fæstir munu kaupa þær, flestir láta duga að skoða þær á netinu, hrópa upp og skilja eftir komment. Þannig upplifum við, lífið er stafrænt og af hverju ekki jólin líka, þetta eru okkar tímar, þetta eru þannig tímar og ádeilan fellur áreynslulaust og auðveldlega inn í sig sjálfa.“