Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gleðigöngunni aflýst í Líbanon

16.05.2018 - 17:58
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Hætt hefur verið við að halda Gleðigöngu samkynhneigðra í Líbanon eftir að stjórnvöld handtóku aðalskipuleggjanda göngunnar í gær. Honum var boðið að blása Hinsegin daga af eða sæta ákæru fyrir brot á hegningarlögum ella.

Meira umburðarlyndis gætir í garð samkynhneigðra í Líbanon en í flestum öðrum Arabaríkjum og þar var fyrsta Gleðiganga í Arabaríki haldin í fyrra. Hinsegin fólk á þó enn á hættu að verða tilviljunarkennt fyrir barðinu á lögreglunni.

Hátíðahöld Hinsegin daga áttu að standa í níu daga í ár og Gleðigangan var ráðgerð um næstu helgi. Þegar hafði verið haldinn árdegisverður til heiðurs foreldrum sem ekki höfðu snúið baki við samkynhneigðum börnum sínum og margir menningarviðburðir stóðu fyrir dyrum í vikunni.

Skipuleggjandi göngunnar í Beirút, Hadi Damien, var hins vegar handtekinn síðdegis í gær og hann látinn gista fangageymslur í nótt. Í morgun var honum skipað að undirrita skjal þar sem hann skuldbatt sig til að aflýsa öllum viðburðum vikunnar, að öðrum kosti yrði honum ekki sleppt úr haldi og hann líklega ákærður fyrir brot á lögum um siðferði á almannafæri.

Í líbönskum hegningarlögum er að finna ákvæði sem bannar óeðlilegt kynlíf og refsiramminn er allt að eins árs fangelsi. Þessu lagaákvæði hefur verið beitt til þess að refsa samkynhneigðum. Hins vegar hafa æ fleiri dómararar leitt þetta ákvæði hjá sér á síðustu misserum og úrskurðað að hverjum og einum sé frjálst að elska og elskast með hverjum þeim sem hann, hún eða hán kýs. Innanríkisráðuneyti Líbanons hefur ekki viljað tjá sig um málið í dag.

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV