Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gleðiganga í miðri réttindabaráttu

27.10.2018 - 10:04
Costumed participants pose on a street during the annual gay and lesbian parade, organized by Taiwan LGBT Pride, in Taipei, Taiwan, Saturday, Oct. 27, 2018. (AP Photo/Chiang Ying-ying)
 Mynd: AP
Tugir þúsunda tóku þátt í Gay Pride göngu í Taipei, höfuðborg Taívans, í dag. Þetta er stærsta ganga sinnar tegundar í Asíu en undanfarið hefur verið heit umræða um réttindi hinsegin fólks í Taívan. Í maí 2017 staðfesti æðsti dómstóll Taívans að samkynhneigðir hefðu rétt til að giftast og að yfirvöld yrðu að gera það kleift innan tveggja ára. Nú hafa andstæðingar réttinda samkynhneigðra hins vegar boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Atkvæðagreiðslan á að fara á fram um leið og almennar kosningar verða í landinu í nóvember. Þeir sem berjast fyrir réttindum hinsegin fólks boða á móti eigin þjóðaratkvæðagreiðslu til að bæta fyrirhuguð lagaákvæði um giftingar samkynhneigðra. Þeir vilja einnig atkvæðagreiðslu um hinsegin fræðslu í skólum. Lagaskýrendur segja ekki liggja fyrir hvað gerist ef andstæðar niðurstöður úr tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum liggja fyrir.

Auður Aðalsteinsdóttir