Glás til að glápa á í páskafríinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Glás til að glápa á í páskafríinu

18.04.2019 - 10:30
Fram undan er fimm daga helgi og ef það er einhvern tíman tilefni til þess að hámhorfa kvikmyndir og sjónvarpsþætti þá er það líklegast í páskafríinu. Við tökum hér saman nokkrar kvikmyndir og þætti sem þú ættir ekki að láta fram hjá þér fara.

Marvel kvikmyndirnar
Ef þú ert ofurhetju aðdáandi þá ertu líklegast meðvitaður um það að síðasta Avengers myndin (allavega í bili), Avengers: Endgame, er væntanleg í kvikmyndahús 24. apríl. Til að hita þig upp fyrir það er ekki vitlaust að horfa á hinar þrjár Avengers myndirnar, The Avengers, Avengers: Age of Ultron og Avengers: Infinity War. Marvel myndirnar eru orðnar fleiri en flestir geta talið en ef þú telur þig hafa tíma til að horfa á þær allar fyrir frumsýningu þeirrar nýjustu þá er hér listinn yfir þær allar í réttri tímaröð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Marvel
Thanos smellti fingrunum í lok síðustu myndar, hvert verður framhaldið?

Krúnuleikarnir
Það fór líklegast ekki fram hjá þér að síðasta þáttaröð Game of Thrones hófst um síðustu helgi. Ef þú náðir ekki að undirbúa þig nógu vel fyrir frumsýningu eða hefur aldrei horft á Game of Thrones þá er páskafríið kjörið tækifæri til að rifja upp allt það sem vinir okkar í Westeros hafa gengið í gegnum í síðustu sjö þáttaröðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: HBO
Hvað mun Cersei gera í síðustu þáttaröðinni?

Íslenskt jafnt sem erlent
Spilari RÚV lætur ekki sitt eftir liggja í páskaháminu og þar má nú finna fjölmargar þáttaraðir og kvikmyndir, íslenskar og erlendar, sem hægt verður að horfa á yfir páskana. 

Þar mætti kannski fyrst nefna kvikmyndirnar Kona fer í stríð og Mannasiðir. Kona fer í stríð verður á dagskrá á Páskadag en Mannasiðir eru nú þegar aðgengilegi í spilaranum. Mannasiðir er íslensk mynd um menntaskólanema sem er ákærður fyrir að nauðga skólasystur sinni. Hann neitar sök en á sér ekki viðreisnar von innan veggja skólans þar sem stúlkan á sterkt stuðningsnet. 

Þáttaröðin Atlanta hefur einnig verið birt í heild sinni í spilaranum en um er að ræða gamanþáttaröð um tvo frændur. Earl hefur flosnað upp úr háskólanámi og býr inni á barnsmóður sinni en þegar hann kemst að því að frændi hans er við það að slá í gegn sem rapptónlistarmaður gerist hann umboðsmaður hans og saman reyna þeir að komast á toppinn í rappsenu Atlanta.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Atlanta
Frændurnir reyna að meika það í rappsenu Atlanta

Beyoncé kemur heim
Ein ástsælasta poppstjarna í heiminum, sjálf Beyoncé Knowles-Carter, mun frumsýna heimildarmyndina Homecoming á Netflix þann 17. apríl. Myndin fjallar um um sögufrægt atriði söngkonunnar á Coachella í fyrra og mun kafa djúpt í það listræna ferli sem fram fór áður atriðið varð að veruleika. Ef þú ert hluti af býflugnabúinu (e. BeyHive) þá viltu sennilega ekki missa af þessari!

Dularfull hvörf og fullkomin stefnumót
Og talandi um Netflix þá er að sjálfsögðu nóg í boði þar fyrir þyrsta áhorfendur. Heimildaþættirnir um hina þriggja ára gömlu Madelein McCann sem hvarf sporlaust úr hótelherbergi fjölskyldu sinnar árið 2007 hafa vakið mikla athygli undanfarið en í þáttunum er farið ítarlega yfir tímalínu málsins, rætt við fólk sem var á vettvangi, fréttamenn og vinafólk fjölskyldu Madelein, sem hefur enn ekki fundist. 

Ef dularfull hvörf eru ekki þinn tebolli og þú værir frekar til í einfalda rómantíska gamanmynd þá gæti nýjast kvikmynd Netflix samsteypunnar, The perfect date, verið eitthvað fyrir þig. Myndin fjallar um menntaskóladreng sem ákveður að safna pening með því að setja á laggirnar app þar sem hann selur stefnumót. Með aðalhlutverk myndarinnar fer Noah Centineo en hann sló í gegn í Netflix myndinni To all the boys I´ve loved before sem óhætt er að mæla með sömuleiðis. 

Við mælum svo að sjálfsögðu með að kynna sér páskadagskrá RÚV og fletta í gegnum spilarann þar sem nóg af gúmmelaði er að finna til að njóta með páskaegginu.