Glaðbeittur ofurafi og glóandi gallsteinar

Mynd: Menningarfélag Akureyrar / Menningarfélag Akureyrar

Glaðbeittur ofurafi og glóandi gallsteinar

02.04.2019 - 15:18

Höfundar

Söngleikurinn Gallsteinar afa Gissa, sem sýndur er í Samkomuhúsinu á Akureyri, er snörp og fyndin sýning með hjartað á réttum stað, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.

Brynhildur Björnsdóttir skrifar:

Það er aldrei of mikið af barnaleikritum á fjölum leikhúsanna enda óendanlega mikilvægt að sýna börnum frá unga aldri töfra leikhússins svo þau kunni að njóta þeirra þegar þau verða fullorðin. Þá eru íslensk verk úr íslenskum samtíma einnig bráðnauðsynleg í barnaleikhúsflóruna, ekki síður en íslenskar barnakvikmyndir og -bækur. Íslenskir krakkar verða að fá það staðfest að þeirra raunveruleiki sé ekki síðri með sínum sérkennum en raunveruleiki barna í útlöndum með því að setja hann á svið og hampa honum í menningu og dægurmenningu.

Gallsteinar afa Gissa gera þetta og gott betur þar sem verkið gerist á Akureyri og þannig í veröld þorra þeirra barna sem það sjá. Það er svo auðvitað gaman fyrir alla krakka að sjá þetta leikrit og því ástæða til að hvetja gestkomandi fjölskyldur á Akureyri til að skella sér í Samkomuhúsið sem er að mínu mati fallegasta leikhús landsins og sjá þessa bráðskemmtilegu leiksýningu.  

Gallsteinar afa Gissa er glæsileg og mjög skemmtileg sýning. Verkið er byggt á bók eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem kom út árið 2003 en úr þeirri bók var líka gert útvarpsverk sem flutt var í Útvarpsleikhúsinu árið 2016.  

Borgar sig að óska sér varlega

Systkinunum Torfa og Grímu finnst þau ekki eiga sjö dagana sæla. Foreldrar þeirra eru stressað framafólk, pabbinn er fastur við vinnuskjölin sín og nennir aldrei að leika við þau og mamman stjórnar heimilinu eins og herforingi á milli þess sem hún eldar bragðdaufan hollustukost og heldur ræður um hvað sykur sé mikið eitur. Þau eru sannfærð um að Úlfur stóri bróðir þeirra hafi verið numinn á brott af geimverum og gerður að unglingi sem er bæði önugur og illkvittinn og notar hvert tækifæri til að pína þau og kvelja. Svo er leiðinlegt í skólanum og þau mega ekki fá gæludýr.

Mynd með færslu
 Mynd: Menningarfélag Akureyrar

Ljósið í myrkrinu er afi Gissi sem er fyrir krökkunum nánast ofurhetja, nautsterkur, skemmtilegur og góður og leyfir þeim að troða sig út af P-mat (pylsum, pítsum og pítum) og sælgæti. Afi Gissi þarf að leggjast inn á spítala þar sem eru teknir út honum gallsteinar og að sjálfsögðu búa gallsteinar úr slíkum manni yfir töframætti. Krakkarnir óska sér að líf þeirra breytist til þess sem þau telja að sé betra og fá óskir sínar uppfylltar með mjög fyndnum hætti og von bráðar komast þau að því að það borgar sig að óska sér varlega.  

Áheyrileg tónlist en krefjandi söngtextar

Gallsteinar afa Gissa er söngleikur og þar leikur tónlistin að sjálfsögðu stórt hlutverk. Hún er eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson sem hefur lagt íslenskri barnamenningu til margar hennar helstu tónperlur í leikritunum um Gosa, Benedikt búálf og Ávaxtakörfuna svo dæmi séu tekin. Tónlistin í þessu verki er áheyrileg og skemmtileg en kannski ekki eins eftirminnileg og í fyrrnefndum verkum. Sem er reyndar ekki að marka því ég hef ekki heyrt hana jafnoft... enn þá.  

Söngtextarnir eru eftir Karl Ágúst Úlfsson sem einnig skrifar leikgerðina ásamt Kristínu Helgu og fer með titilhlutverkið, leikur sjálfan afa Gissa sem er eins konar leikstjórnandi sýningarinnar og stjórnar framvindunni auk þess að bjóða leikhúsgestum að taka þátt í hópsöng, bumbuslætti og rappi sem markar hans stöðu sem yfirnáttúrulegrar veru sem læðir ser gegnum fjórða vegginn eins og ekkert sé.

Karli Ágústi ferst allt þrennt prýðilega úr hendi enda vanur maður á ferð en aðeins bar á því að textarnir heyrðust ekki fyrir tónlistinni sem er alltaf miður en einkum þegar þeir innihalda upplýsingar um framvindu verksins. Það má reyndar mögulega skrifa á tæknilega örðugleika sem létu á sér kræla á sýningunni sem ég var á. Þá er tónlistin nokkuð krefjandi fyrir leikarana sem áttu misauðvelt með að syngja hana sem einnig kom niður á textaflutningi.  

María Pálsdóttir og Benedikt Karl Gröndal fara með hlutverk foreldra krakkanna og stóðu sig vel, bæði sem ferhyrningar og flippkisar, sérstaklega þó Benedikt sem var óendanlega fyndinn þegar pabbinn var orðinn orkumikill íþróttagarpur, sérstaklega þegar hann söng um það langt lag þar sem textinn inn var lítið annað en Ég er hress!  

Mynd með færslu
 Mynd: Menningarfélag Akureyrar

Jóhann Axel Ingólfsson bar af í söngnum og dró líka upp einstaklega skemmtilegar myndir af þeim persónum sem hann lék, einkum þó unglingnum Úlfi, spennandi leikari sem gaman verður að fylgjast með. Birna Pétursdóttir komst einnig ágætlega frá sínu og þau Jóhann voru sérlega skemmtileg í laginu Ding dong þar sem þau brugðu sér í ýmis hlutverk á stuttum tíma.  

Margrét Sverrisdóttir fer með hlutverk Boggu, vinkonu afa Gissa og dregur upp sannfærandi mynd af vingjarnlegi en vankaðri aðalskonu sem lifir ekki í sama heimi og við, eins og Gissi kemst að orði. Persóna Boggu er líka aðeins utan við heim leikritsins og tilgangur hennar fyrir söguþráðinn óljós nema að gefa persónu Gissa meiri vídd. Sama má segja um tónlistarmennina sem stundum birtust spilandi á sviðinu, tónlistin var að mestu tekin upp fyrir fram og því tilgangur hljómsveitarinnar óljós og alls ekki nauðsynleg eða í tengslum við framvindu verksins. En hljómsveitarmeðlimir áttu góða spretti, bæði í hljóðfæraleik og gríni og voru, eins og Bogga, krydd í sýninguna.

Rúsínurnar í pylsuendanum eru svo auðvitað börnin sem leika systkinin. Ég sá Örn Heiðar Lárusson og Steingerði Snorradóttur fara með hlutverk Torfa og Grímu en þau deila hlutverkunum með þeim Daníel Frey Stefánssyni og Þórgunni Unu Jónsdóttur. Yfirleitt eru tvær sýningar á sunnudögum og leika þau hvor sína sýninguna. Þau voru valin úr fjölmennum hópi umsækjenda en í kringum hundrað börn fóru í prufur fyrir hlutverkin og þau sem ég sá stóðu sig með mikilli prýði í burðarhlutverkum, bæði í söng og leik.  

Fallegir búningar og djúp sviðsmynd

Sviðsmynd Þórunnar Maríu Jónsdóttur er einkar skemmtileg, eiginlega eins og origami sem flett er sundur og saman eftir rýmum. Í henni líka dýpt sem veldur því að stundum eru leikararnir eins og á skjá eða á himnum sem gefur yfirnáttúrulegt yfirbragð. 

Búningar hennar eru fallegir og undirstrika sérkenni persónanna, einkum er gaman þegar foreldrarnir breyta um skapgerð og þar af leiðandi um fatastíl svo um munar. Þá voru geimverurnar einnig vel útfærðar. Sviðshreyfingar og dansar Katrínar Mistar Haraldsdóttur eru einfaldir en virka vel. 

Ágústa Skúladóttir leikstjóri hefur sennilega leikstýrt fleiri barna- og fjölskyldusýningum en flestir aðrir leikstjórar landsins. Leikstjórnin ber mörg höfundareinkenni hennar, snörp og fyndin og sækir mikið í trúðleik sem tekur sig ekki of alvarlega en er alltaf með hjartað á réttum stað. Og það má eiginlega nota þau orð um sýninguna í heild sinni, snörp og fyndin með hjartað á réttum stað. Börn á öllum aldri í salnum virtust skemmta sér hið besta og foreldrarnir líka.  

Tengdar fréttir

Leiklist

Kjötborð sjálfsmyndarinnar

Tónlist

Heillandi stórsýning um einelti og réttlæti 

Leiklist

Það ætti að vera viðvörun á óskasteinum

Leiklist

Afi Gissi á fjalirnar á Akureyri