Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gjörningur og háðsádeila sem eigi erindi

Mynd:  / 

Gjörningur og háðsádeila sem eigi erindi

03.03.2019 - 12:16

Höfundar

Almenn ánægja var meðal þingmanna í Silfrinu í morgun með úrslitin í Söngvakeppninni í gær. Framlagið sé flottur gjörningur sem eigi erindi til Ísraels í maí. Eurovision-keppnin verður haldin í Tel Aviv.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir að hann hafi upplifað það í fyrsta sinn í gær að lið sem hann hélt með í söngvakeppninni vann. Honum finnst lagið gott. „Fyrir utan að mér finnst þetta nokkuð skemmtilegur gjörningur. Þannig að ég er jákvæður fyrir okkar hönd.“ 

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir Hatara vera ádeiluatriði, með flotta gjörningalist og það hafi gefist Íslandi vel í Eurovision. Tilefnið sé ærið núna. „Það er svo mikil pólitík í þessu hjá þeim og samt háðsádeila. Virkilega flott.“ 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, segist líklega alræmdasti Eurovision-hatari landsins og hafi því haldið sig til hlés í gær. „En ég vil gjarnan að við hættum þátttöku í þessu og notum frekar peningana í íslenska dagskrárgerð, alvöru dagskrárgerð. Þannig að ég er eiginlega ekki við mælandi um þetta.“ Hann telur ekki skipta máli hver verði sendur út, það hafi ekki skipt máli hingað til. „En vonandi skemmta þeir sér vel og verða landi og þjóð til sóma.“

Unnur Brá Konráðsdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, er himinlifandi með úrslitin, enda hafi fjölskyldan haldið með Hatara. „Nú er Gleðibankastemning heima hjá mér, við ætlum bara að fara alla leið og vinna þetta.“ 

List mótvægi gegn lélegri pólitík

Smári segir að hann hafi fyrst áttað sig á því í morgun að ef tekinn er út síðasti stafurinn í BDSM fáist skammstöfun hreyfingar sem berjist gegn landtöku á Vesturbakkanum; BDS.  „Ég veit ekki að hvort það sé einhver tilviljun eða hluti af hugmyndinni [...]  í gegnum tíðina hefur listin alltaf verið með sterkasta mótvægið gegn lélegri pólitík.“

Logi segir það alltaf spurningu hvort taka eigi þátt. Í grunninn sé vilji til þess að skilja menningu, íþróttir og list frá pólitík. Hann hafi sveiflast í afstöðu sinni. „En fyrst það var tekin ákvörðun [um að taka þátt], þá finnst mér gaman að það komi frá okkur framlag sem setur fram spurningar. Og ég held að þetta framlag var það eina sem átti eitthvað erindi til Ísrael.“

Unnur Brá segir að besta leiðin til að breyta heiminum sé að taka þátt og eiga samtal við aðrar Evrópuþjóðir. Hún upplifir framlag Hatara ekki sem pólitískt. „Nei, ég geri það ekki. En mér finnst gott að við erum að fara að senda þetta framlag. Og þeir sem eru ósáttir við að við séum að taka þátt að þessu sinni geta þá allavega verið sáttir við að það séu einhver skilaboð sem er verið að senda.“  

Tengdar fréttir

Tónlist

Hatrið sigraði í Söngvakeppninni

Tónlist

Ari syngur Grande Amore á úrslitakvöldinu

Tónlist

„Tíu ár síðan ég vann næstum því“

Innlent

#12stig á Twitter