Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Gjöra svo vel og moka ofan í aftur“

08.04.2019 - 09:11
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landgræðslustjóri segir að íslenskir bændur séu enn að grafa skurði og þurrka upp votlendi og það í óleyfi. Stór hluti af losun gróðurhúslofttegunda er rakinn til framræslu á mýrum. Hann gagnrýnir sveitarfélög fyrir sinnuleysi í málinu.

„Það er búið að ræsa fram, á sama tíma og við höfum verið að endurheimta, meira flatarmál heldur en við höfum endurheimt. Því miður. En það sem verra er er að menn sækja ekki um tilskilin leyfi. Það er alveg skýrt í náttúruverndarlögum að ef ræsa á fram meira en 2 hektara þá skal sækja um leyfi til sveitarstjórnar. Sveitarstjórn á þá að leita umsagnar hjá Umhverfisstofnun. Þetta hefur bara ekkert verið gert,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.

Í mýrum binst mikið kolefni á löngum tíma með lífrænni framleiðslu. Þegar mýrar eru þurrkaðar til landbúnaðar hefst ferli sem losar koltvísýring og aðrar gróðurhúsalofttegundir. Því hefur verið haldið fram að allt að 70% af losun af mannavöldum á Íslandi megi rekja til framræslu lands en nú er unnið að rannsóknum til að varpa ljósi á raunverulegt umfang. Aðeins hluti af því landi sem var ræst fram á sínum tíma er í dag notað til landbúnaðar.

Árni segir að sveitarfélögum beri að hafa eftirlit með og taka á leyfislausri framræslu sem sé lögbrot. „Það væri hægt að krefja viðkomandi landeiganda sem ræst hefur fram í óleyfi að hann hreinlega moki ofan í skurðina aftur áður en hann sækir um leyfi. Ef menn byggja hús án þess að hafa tilskilin leyfi samkvæmt skipulagi. Þá er hægt að krefja menn um að rífa húsið. Það gildir það sama ef menn eru að ræsa fram án þess að hafa leyfi. Gjöra svo vel og moka ofan í aftur.“

Hann vill þó ekki nefna þau sveitarfélög sem um ræðir. „Þetta er ekki bara í einu sveitarfélagi og því miður er þetta svo að menn eru ekkert að standa sig. Þeir vita af þessu. Landgræðslan skrifaði öllum sveitastjórnum bréf í lok árs 2017 og ítrekaði það á síðasta ári. Það gerist ekkert,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.