Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gjaldþrot WOW gæti kostað yfir 4000 störf

23.03.2019 - 08:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Ef WOW air færi af flugmarkaði gæti það orðið til þess að landsframleiðsla drægist saman um 0,9 til 2,7 prósent á einu ári. Þetta sýna niðurstöður rannsóknar sem Reykjavík Economics vann að beiðni WOW air, en greint er frá rannsókninni í Fréttablaðinu í dag. Í framhaldinu myndi gengi krónunnar lækka og verðbólga aukast. 

Tekið er fram í skýrslunni að ástæða samdráttarins í landsframleiðslu yrði fækkun flugfarþega vegna minna sætaframboðs. Afar ólíklegt sé að önnur flugfélög geti aukið, svo nokkru nemi við framboð sitt í sumar með svo skömmum fyrirvara. 

Samkvæmt sviðsmyndagreiningu Reykjavík Economics myndu á bilinu 5-15 prósent þeirra sem starfa innan einkennandi atvinnugreina ferðaþjónustunnar missa vinnuna. Starfsmenn í greininni séu um 29 þúsund og því gætu á bilinu 1.450 og 4.350 manns misst vinnuna. 

Fréttastofa hefur undir höndum sviðsmyndagreiningu sem unnin var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið í ágúst. Þar var gert ráð fyrir því að með gjaldþroti WOW gæti hagvöxtur dregst saman um 2 prósent á árinu 2019 og verðbólga farið upp í 5 prósent.

Frétt Fréttablaðsins. 
 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV