Gjaldtaka gæti skilað milljörðum á ári

19.06.2013 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Gjaldtaka á sex vinsælustu ferðamannastöðum landsins gæti skilað þjóðinni þremur til fimm milljörðum króna á ári, að mati Arion banka. Þetta er tvöfalt hærri upphæð en hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu átti að skila á næsta ári.

Sífellt fleiri ferðamenn streyma til landsins og hefur hlutdeild ferðaþjónustunnar í útflutningi tvöfaldast á undanförnum árum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Arion banka um ferðaþjónustuna.

Þar segir að framlag ferðaþjónustu til landsframleiðslu sé nú á við helminginn af framlagi sjávarútvegs. Gert er ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 36% á næstu tveimur árum.

Þessi mikla fjölgun ferðamanna veldur því að farið er að reyna ískyggilega mikið á þolmörk náttúrunnar. Möguleg lausn, að mati Arion banka, gæti falist í gjaldtöku. Til dæmis mætti rukka beint fyrir aðgang að ákveðnum svæðum eða náttúruperlum - eða að gefa út ferðamannapassa, sem myndi gilda á helstu ferðamannastöðum.

Í skýrslunni er miðað við að gjald á hverjum stað verði þrjú til fimm þúsund krónur og eigi jafnt við um Íslendinga og útlendinga. Þannig mætti draga úr umferð ferðamanna og gjaldtakan gæti þá skilað þjóðarbúinu þremur til fimm milljörðum króna á ári. Til samanburðar átti hækkun virðisaukaskatts á gistiþjónustu úr 7% í 14% að skila einum og hálfum milljarði króna á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur boðað að ekkert verði af þeirri hækkun.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi