Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gjaldtaka af ökumönnum til skoðunar

07.02.2017 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Taka verður gjald af ökumönnum ef fjármagna á nauðsynlegar vegaframkvæmdir. Þetta segir samgönguráðherra. Til skoðunar er að taka gjald af þeim sem aka út af höfuðborgarsvæðinu.

Tveir erlendir ferðamenn létust í umferðinni í fyrra, samanborið við fimm árið áður. 47 slösuðust hins vegar alvarlega sem var töluverð fjölgun frá árinu áður, þegar 26 slösuðust alvarlega. Þetta var á meðal þess sem kom fram á fundi um vegakerfið og umferðaröryggi í morgun. Framsögumenn lýstu miklum áhyggjum af ástandi vegakerfisins og öryggi þeirra sem það nota. Á meðal þeirra var verkefnastjóri Lögreglunnar á Suðurlandi.

„Við teljum að það sé óásættanlegt hversu margir lenda í óhöppum hjá okkur, hversu margir slasast og hversu margir hafa látist. Það er ekki ásættanlegt hvernig staðan er,“ segir Víðir Reynisson, verkefnastjóri hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

„Eftir snjóflóðin 1995 voru þessi mál skoðuð og það var tekin ákvörðun um að það væri óásættanlegt ef einhver létist í snjóflóði heima hjá sér ef líkurnar væru meiri en einn á móti 10.000. Og ég kalla eftir því að við horfum á þessi mál, öryggi ferðamanna og öryggi í samgöngum, með svipuðum hætti. Það er að segja að við setjum okkur markmið, hvað sé ásættanleg áhætta við að vera í umferðinni og hvað er óásættanlegt og við bregðumst við samkvæmt því,“ segir Víðir.

Stefna á stórátak

Jón Gunnarsson, samgönguráðherra, tekur undir með Víði, og segir að taka verði á vandanum.

„Í þessum málaflokki höfum við verið að horfa til þess hvernig við getum farið í stórátak á þessum vettvangi. Og ég hef skipað starfshóp sem mun skila fyrstu niðurstöðu fyrir vorið þar sem við kortleggjum þessar leiðir inn og út af höfuðborgarsvæðinu, út á Reykjanes, Suðurland og Vesturland, mað þá fullnaðarfrágang á umferðarmannvirkjum upp í Borgarnes, austur fyrir Selfoss og til Keflavíkurflugstöðvar,“ segir Jón.

Á fundinum kom meðal annars fram að það vanti tæpa 10 milljarða á þessu ári til að fullfjármagna framkvæmdir sem eru á samgönguáætlun. Jón segir að gjaldtaka á leiðunum frá höfuðborgarsvæðinu komi til greina til að brúa það bil.

„Mín skoðun er sú að við þurfum að hugsa eitthvað í þá átt ef við ætlum að ná í skottið á okkur í þessum efnum. Að öðru leyti, ef við notum aðeins það framlag sem verður fært að setja úr ríkissjóði í þennan mikilvæga málaflokk, það er víða togast á um fé í því, heilbrigðismálin, menntamálin og svo framvegis, þá munum við þurfa að fara einhverja slíka leið,“ segir Jón.

Þannig að í stuttu máli; þú sérð fyrir þér gjaldtöku út úr höfuðborginni til þess að fjármagna vegaframkvæmdir annars staðar á landinu?

„Ég sagði að það sé eitt af því sem verður skoðað í þessari vinnu,“ segir Jón.