Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gjaldeyrishöftin hefta nýsköpun

23.02.2014 - 18:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Forstjórar tveggja stórra alþjóðlegra fyrirtækja hér á landi, Marel og CCP, gagnrýna þá ákvörðun að draga til baka aðildarumsókn gagnvart Evrópusambandinu. Enginn annar valkostur hafi verið dreginn fram. Forstjóri Marel bendir á að gjaldeyrishöftin standi nýsköpun fyrir þrifum.

Þrjú alþjóðleg stórfyrirtæki hér á landi eru í þeirri sérstöku aðstöðu að hafa undanþágu frá gjaldeyrishöftum, Össur, Marel og CCP. Tekjur þessara fyrirtækja koma að mestu erlendis frá. Fréttastofa ræddi í dag við forstjóra tveggja þessara fyrirtækja um þá fyrirætlan stjórnvalda að draga til baka aðildarumsókn. Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, er uggandi um stöðu minni fyrirtækja. „Marel og önnur stórfyrirtæki eru að mestu undanþegin gjaldeyrishöftum, það eru hins vegar fjölmargir spennandi sprotar að vaxa úr grasi hérna á Íslandi, og þeir ná ekki alþjóðavæðingunni, og ná ekki að efla og byggja upp viðskiptasambönd erlendis. Þannig að þetta slær mig mjög illa,“ segir Árni Oddur. 

Í sama streng tekur Hilmar Veigar Pétursson forstjóri CCP. „Mér finnst þetta svolítið undarleg forgangsröðun. Við höfum náttúrulega bent á það lengi vel að það er margt sem má laga hér þegar kemur að umhverfi fyrirtækja sem eru í miklum útflutningi og á svona hátæknisviði eins og við erum. Og það eru þá helst gjaldmiðlamál og sérstaklega gjaldeyrishöftin.“

Árni Oddur segir Evruna eina raunhæfa valkostinn. „Eins og sakir standa er enginn annar raunhæfur valkostur á borðinu, en Evran í stað krónunnar, en ég er ekki að segja að við eigum að ganga þangað inn skilyrðislaust, en það er ekki rétt að loka á valkosti eins og staðan er í dag.“

Hilmar Veigar segir viðskiptaumhverfið á Íslandi óeðlilegt. „Við erum kannski svo ágætlega í stakk búnir að við þurfum ekkert nauðsynlega að vera hér frekar en einhversstaðar annars staðar, þó að við náttúrulega viljum vera það og erum búnir að vera hér í fimm ár undir gjaldeyrishöftum, á allskonar undanþágum og bixi sem því fylgir, sem er náttúrulega ekki eðlilegt umhverfi.“