Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gistinóttum fækkar en hótelum fjölgar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hótelherbergjum í Reykjavík fjölgar verulega næstu tvö ár. Seldum gistinóttum hefur fækkað í ár. Deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg segir hlutfall þeirra sem starfa við ferðmennsku í Reykjavík orðið mjög hátt.

Í ár hafa tæplega 200 ný hótelherbergi verið tekin í notkun í Reykjavík. Á næstu tveimur árum er fyrirhugað að tæplega 2.000 bætist við. Um 448 af þeim verða á nýju hóteli sem rís á Hlíðarenda. Það verður stærsta hótel Íslands, ef allt gengur samkvæmt áætlun. 

Nýting á hótelum góð

Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, segir að nýting á hótelherbergjum sé mjög góð í Reykjavík. Borgin vilji þó ekki að öll gistirými séu á sama svæði. Búið er að setja takmarkanir á slíka starfsemi í Kvosinni, á Laugavegi og Hverfisgötu. „Það er ljóst að það er þörf á hótelherbergjum, sérstaklega ef við horfum á heimagistinguna og hversu mikið hún er draga til sín. En það er engri borg heilbrigt að hótelstokkurinn stækki um 50% á einhverjum tveimur árum,“ segir Óli Örn.

Hann segir að nokkrir hafi nú þegar gefið út að fram fari endurskoðun á fyrirhuguðum verkefnum, sem gæti hafa komið til vegna breytinga í ferðaþjónustu. „Á Héðinsreit voru tvö hótel fyrirhuguð, í dag er bara eitt hótel fyrirhugað þar. Á Suðurlandsbraut 18 var fyrirhugað hótel en þar eru menn að endurskoða áform sín.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Seldum gistinóttum fækkar

Fram hefur komið í fréttum RÚV að hægst hefur á vexti í ferðaþjónustu. Einnig virðist fjöldi seldra gistinótta fara minnkandi. Sé litið til fyrstu sex mánaða á síðustu fimm árum, fór seldum gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu fjölgandi fram til ársins 2017 en í ár eru þær rúmlega 3.500 færri en á sama tíma í fyrra. Stefna Reykjavíkurborgar er að atvinnustarfsemi sé fjölbreytt og á það sama við um gististarfsemi.

„Ef við skoðum hlutfall starfandi eftir atvinnugreinum sjáum við það að við erum komin rosalega hátt upp í því hversu margir af íbúum borgarinnar vinna við ferðaþjónustu. Þannig það verður ekki áhersluatriði borgarinnar að stórauka stuðning við ferðaþjónustu á komandi árum,“ segir Óli Örn.