Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Gistinætur standa nánast í stað á milli ára

01.08.2018 - 10:31
Mynd með færslu
Myndin er úr safni. Mynd: RÚV
Ferðamenn gistu samtals í 1.188.600 nætur á Íslandi í júní, sem er hálfu prósenti minna en í fyrra þegar þær voru 1.195.000. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru 589.200 og samtals vörðu ferðamennirnir 190.800 nóttum í gistingu á vegum vefsíðna á borð við Airbnb. Gistinætur á farfuglaheimilum, tjaldstæðum og í svefnpokaplássi voru 408.600.

Þar til viðbótar voru gistinætur erlendra ferðamanna utan hefðbundinna gististaða áætlaðar 55.400 í júní, að því er segir á vef Hagstofunnar. Þar af voru 26.600 í bílum utan tjaldstæða og 28.800 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða á öðrum stöðum þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 4% á milli ára og voru 410.800. Um 54% hótelgistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Um 90% gistinátta á hótelum voru skráðar á erlenda ferðamenn en 10% á Íslendinga. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir með 131.200 nætur, síðan Þjóðverjar með 43.900 og Bretar með 31.300.

Á tólf mánaða tímabili, frá júlí 2017 til júní 2018, voru gistinætur á hótelum samtals um 4.301.000 sem er 3% meira en á sama tímabili ári áður.

Herbergjanýting í júní 2018 var 77,7%, sem er lækkun um 3,2 prósentustig frá júní 2017 þegar hún var 80,9%. Á sama tíma hefur framboð gistirýmis aukist um 5,5% mælt í fjölda herbergja. Nýtingin í júní var best á Suðurnesjum, eða 84,7%.