Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Gígur nefndur eftir Halldóri Laxness

20.06.2013 - 03:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga samþykkti í vikunni tillögu vísindamanna að nefna gíg á Merkúr eftir Halldóri Kiljan Laxness. Vísindamennirnir starfa við MESSENGER leiðangur Nasa en samnefnt geimfar hefur verið á braut um reikistjörnuna frá því í mars árið 2011.

Gígurinn sem kemur til með að heita Laxness er tæplega tuttugu og sex kílómetrar í þvermál og er skammt frá norðurpól reikistjörnunnar. Fleiri gígar á Merkúr eru nefndir eftir heimsþekktum látnum listamönnum, tónlistarmönnum, rithöfundum eða öðrum sem sett hafa mark sitt á menningu og listir mannkynsins. Íslendingar áttu fyrir nokkra fulltrúa á reikistjörnunni en gígar hafa einnig verið nefndir eftir sagnaritaranum Snorra Sturlusyni, listakonunni Júlíönu Sveinsdóttur og myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur. 

Frá þessu er greint á stjörnufræðivefnum.