Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Gífurlegur vandi sauðfjárbænda á jaðarsvæðum

10.08.2017 - 09:27
Mynd: Rúnar Snær Reynisson / RÚV
Lækkandi afurðaverð til bænda í haust er bráðavandi sem bregðast þarf við, að mati Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Hún hefur óskað eftir fundi atvinnuveganefndar Alþingis vegna málsins í næstu viku.

Lilja segir að lækkun afurðaverðs til sauðfjárbænda í fyrra hafi verið 10 prósent en verði um 35 prósent nú í haust. „Sauðfjárbændur á veikustu svæðunum og á jaðarsvæðum standa frammi fyrir gífurlegum vanda. Þeir bændur sem hafa ekki tök á að sækja sér aðra vinnu með sínum rekstri. Þetta er auðvitað bara bráðavandi sem þarna er,“ segir Lilja Rafney. Rætt var við hana á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Hún segir brýnt að bregðast við svo að sauðfjárbændum með rekstur fækki ekki.

Lilja á von á því að fundur atvinnuveganefndar Alþingis verði haldinn á þriðjudag í næstu viku. Þangað verða boðaðir fulltrúar Bændasamtakanna og afurðastöðva og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Fleiri taki á sig áföll

Að mati Lilju er stuðningur við sauðfjárbændur líka stuðningur við neytendur og beingreiðslur til þeirra eiga að koma fram í verði. Þá hafi stuðningur við sauðfjárbændur verið um 5 prósent af vergri landsframleiðslu fyrir áratug en sé nú 1 prósent. Vanda vegna aukins rekstrarkostnaðar og lokunar á Rússlandsmarkaði þurfi fleiri að taka á sig en bændur. 

Lilja segir að í búvörusamningum sem samþykktir voru af Alþingi í fyrra hafi verið of mikill framleiðsluhvati. Samningarnir séu til tíu ára og ætlunin hafi verið að endurskoða þá næstu þrjú ár. 

Stjórnvöld styðja sauðfjárbændur um fimm milljarða á ári. Er ástæða til að auka þann stuðning?

„Það fer eftir því hvernig við beinum stuðningnum. Ég tel að það þurfi að draga úr þessum framleiðsluhvata og styðja við unga bændur og þau svæði sem henta mjög vel undir sauðfjárrækt.“

Telur umræðuna erfiða

Lilja segir mikilvægt að nýta svæði sem gróðurfarslega henti undir sauðfjárrækt og einnig að hjálpa til við kynslóðaskipti í greininni. „Þetta er erfið umræða en þeir sem vilja að sauðfjárbændur verði áfram í landinu þurfa að taka hana. Ég kalla eftir því að þeir bændur sem þetta brennur heitast á, að þeir komi með hugmyndir og sjónarmið inn í þessa umræðu núna og ég trúi því að þeir muni gera það.“ 

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir