Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Giammattei tekur við af Morales

12.08.2019 - 02:10
epa07769129 Candidate for the presidency of Guatemala and party leader of the Vamos political party Alejandro Giammattei (C) arrives at a hotel for a press conference after the preliminary results of the elections, in Guatemala City, Guatemala, 11 August 2019.  EPA-EFE/ESTEBAN BIBA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Íhaldsmaðurinn Alejandro Giammattei var í gær kjörinn forseti Gvatemala. Bar hann sigurorð af sósíaldemókratanum og fyrrverandi forsetafrúnni Söndru Torres, í seinni umferð forsetakosninganna.

Þau Giammattei og Torres urðu efst í fyrri umferð kosninganna hinn 16. júní. Þá hlaut Torres 25,5 prósent atkvæða, nær tvöfalt meira en Giammattei sem fékk tæp 14 prósent atkvæða og endaði í öðru sæti. Skoðanakannanir hafa hins vegar bent til sigurs hans í seinni umferðinni nánast frá upphafi og þegar búið var að telja nánast öll atkvæði reyndist hann hafa fengið 58,5 prósent gildra atkvæða þeirra, en Torres 41,5 prósent. 

Þetta var fjórða atlaga Giammatteis að forsetaembættinu en þriðja tilraun Torres. Bæði hétu þau því að berjast gegn landlægri spillingu, bæta mennta- og heilbrigðiskerfið og draga úr atvinnuleysi, og bæði forðuðust að taka eindregna afstöðu til samkomulags sem núverandi forseti, Jimmy Morales, gerði við Bandaríkjastjórn um málefni innflytjenda.

Samkvæmt því er Gvatemala skilgreint sem „öruggt þriðja land" sem veitir bandarískum yfirvöldum heimild til að senda þangað flesta Hondúra og Salvadora, sem farið hafa til Bandaríkjanna í gegnum Gvatemala. Yfir 80 prósent Gvatemalamanna eru mótfallnir samkomulaginu, sem ítrekað hefur verið mótmælt harðlega á götum úti.

Giammattei tekur formlega við forsetaembættinu af hinum umdeilda Morales, sem sakaður hefur verið um margvíslega spillingu og embættisafglöp, um áramótin.

Fréttin var uppfærð kl. 03.00