
Geysivöxtur Wow-air og „ókeypis“ flug
Áhrif greiðslustöðvunar þýska flugfélagsins Air Berlin breytir litlu fyrir Wow-air segir forstjórinn. Félagið kynnir nýja áfangastaði í næstu viku. Forstjórinn sér fyrir sér byltingarkenndar breytingar í sölu ferða, sem gætu leitt til þess að flugsæti yrðu ókeypis.
Vöxtur lággjaldaflugfélagsins Wow-air hefur verið geysilegur síðan það hóf flug 2012. Það átti fjórðung brottfara frá Keflavíkurflugvelli í júlí og saxar á forskot Icelandair sem var með helming brottfara. Wow-air er með beint flug til Berlínar eins og Air Berlín og flýgur meðal annars til sömu fimm borga í Bandaríkjunum.
„Í sjálfu sér breytir það nú ekki neitt voða miklu annað en að við höldum okkar stefnu áfram og það hefur gengið mjög vel hingað til“, segir Skúli Mogensen forstjóri Wow-air. „Heilt yfir þá höfum við farið úr 100 þúsund farþegum 2012 í þrjár milljónir núna 2017. Áætlum að tvöfalda framboð okkar á næstu tveimur árum. Þetta mun hafa kannski einhver áhrif til skamms tíma en, eins og ég segi, samkeppnin yfir hafið er einfaldlega það mikil að eitt svona atvik per se breytir ekki öllu.“
Wow-air byrjar fljótlega að fljúga til Tel Aviv í Ísrael og hefur verið að horfa lengra austur í Asíu. „Það verður fjöldi tilkynninga bara strax í næstu viku“, segir Skúli og gefur ekkert frekar upp.
Þá er líka að vænta frétta tengdum flugflota Wow en hann er einn sá yngsti í Evrópu. Tekjur Wow í fyrra voru tæpir 37 milljarðar og hagnaður 4,3 milljarðar. Einu skuldirnar eru tengdar flugvélakaupum, segir Skúli.
Lággjaldaflugfélög eru þau flugfélög, sem vaxið hafa hraðast í Evrópu og Bandaríkjunum. Og það, sem kannski er hvað mest spennandi í flugbransanum varðandi ferða- og flugkostnað, er hvernig hægt er lækka verðið enn frekar.
„Ef þú tekur þetta saman, hvað gerir fólk á ferðalagi? Það náttúrulega er með hótel, það er með bílaleigubíl, það fer út að borða og það fer í leikhús osfrv., osfrv. Við eigum að geta sinnt okkar farþegum mun betur heldur en við erum að gera í dag þ.e.a.s. að koma með svona sambærilegar þjónustur eða virðisauka þjónustur. Það er einnig áhugavert að skoða söluleiðirnar þ.e.a.s. það sem fólki líkar þegar það ferðast. Það er að taka myndir og dreifa því á samfélagsmiðlum. Við eigum að geta nýtt okkur það mun betur. Þannig að það er fjöldinn allur af áhugaverðum leiðum, sem við erum að þróa, sem munu líta dagsins ljós innan skamms. Sem vonandi gerir það að verkum að við getum boðið þér frítt flugsæti.“