Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Geysir ekki að vakna

19.03.2016 - 13:08
Mynd með færslu
Myndin er úr safni Mynd: RÚV
Lítið þarf til að Geysir í Haukadal gjósi en ekki er hægt að segja að hann sé að vakna af dvala. Þetta segir Ólafur Flovenz, jarðeðlisfræðingur og forstjóri Íslenskra orkurannsókna. Geysir gaus í gær af sjálfsdáðum í annað sinn á stuttum tíma.

Geysir, frægasti goshver landsins, gaus í gær í annað sinn á mánuði af sjálfsdáðum. Ása Björk Snorradóttir leiðsögukona var í Haukadal með hóp ferðamanna og lýsti þessu svona.

„Þá heyri ég svona drunur fyrir aftan mig og lít við. Þá er risa digur súla upp, mjög há og einhvern veginn svona miklu miklu meira en Strokkur. Ég náttúrlega bara veina á krakkana sem ég var að tala við og þau héldu að ég væri að tapa mér. Þetta var svo rosalega flott.“ 

Engar mælingar að vitað sé eru gerðar við Geysi. Ólafur segir að því sé ekki vitað með vissu hvað varð til þess að hann gaus.
 

„Það eru engin merki um það að Geysir hafi verið að hressast við vegna jarðskjálfta. Hann gerir það ef verða stórir skjálftar og gæti í raun og veru gert það ef það eru smáir skjálftar. Það eru engin merki um það. Hins vegar ber að geta þess að Geysir er alltaf afskaplega nálægt því að gjósa.“   
 

Heitt vatn streymir inn í hverinn, sem er töluvert heitara en 100 gráður. Ef þrýstingur á vatninu lækkar þá gýs hann. Það getur gerst ef vatnið í hveraskálinni lækkar örlítið. 
 

Mynd: ruv / ruv
Gos eftir að sápa var sett í Geysi í ágúst 1974

„Það þarf óskaplega lítið til að koma honum í gos og við verðum að hugsa það líka að hann hresstist við eftir stóra Suðurlandskjálftann árið 2000 og þá gaus hann nokkrum sinnum og svo dró úr því þannig að ég held að þetta sé bara svolítið flökt í þrýsingi þarna niðri sem veldur þessu.“ 
 

„Þannig að við getum ekki fullyrt að hann sé  að vakna af dvala?“ 

„Nei als ekki  þetta geta verið svona einstök tilvik. Þó veit maður aldrei.  Það er í rauninni ekkert fylgst með þessu þannig.“
 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir