Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Geysileg mengun í Hafnarfirði

16.10.2013 - 18:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Svo mikil mengun er á iðnaðarsvæðinu austan Reykjanesbrautar við Straumsvík að leita þarf til iðnaðarsvæða í Austur-Evrópu til að finna jafnmikla mengun. Minnst mengun á landinu er á Vestfjörðum og Norðvesturlandi.

Þetta kemur fram í rannsókn Sigurðar H. Magnússonar gróðurvistfræðings á Náttúrufræðisstofnun sem kynnt var í dag. Þungmálmar og brennisteinn hafa verið mældir í tildurmosa á fimm ára fresti síðan 1990. Skýrslan er unnin fyrir álverin í Straumsvík, Reyðarfirði og á Grundartanga og Elkem á Grundartanga. 

Sigurður segir að mengunin austan við iðnaðarsvæðið í Straumsvík hafi verið meiri en hann hafi búist við. „Við teljum að það megi rekja til iðnaðar sem er þar skammt frá,“ segir hann. Aðallega sé um að ræða málma, blý og sink. „Það er í raun leitun að svo háum gildum eins og þarna fundust. Reyndar eru í Austur-Evrópu sömu gildi eða hærri en aðeins í fáum löndum,“ segir Sigurður. 

Sigurður segir að iðnaðarsvæðin í Straumsvík, á Grundartanga og Reyðarfirði hafi komið svipað út og reiknað hafi verið með. Það séu aðallega þrjú efni sem berast frá álverunum sem hafi verið mæld við rannsóknina; nikkel, arsen og  brennisteinn. Þessi efni hafi yfirleitt hækkað talsvert í styrk frá 2005 til 2010. „Og mosi er skemmdur á allstóru svæði á Suðurlandi og Suðvesturlandi og eins við Reyðarfjörð. Við teljum að mestan hluta af mosaskemmdunum megi rekja til gossins í Eyjafjallajökli 2010,“ segir Sigurður. 

Fjallað hefur verið um skýrsluna í heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Í fundargerð kemur fram nefndin telji niðurstöðurnar gefa skýrt til kynna að á iðnaðarsvæðum eigi ekki að fara fram matvælaframleiðsla eða föst búseta.