„Geturðu plöggað okkur í Vikuna?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Geturðu plöggað okkur í Vikuna?“

08.04.2019 - 12:06

Höfundar

Hljómsveitin Bagdad Brothers hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og var nýlega tilnefnd í flokknum Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Bræðurnir kíktu í Stúdíó 12 og tóku þrjú lög og ræddu hvað er á döfinni. Bagdad Brothers tilheyrir listbandalaginu Post-dreifingu, ásamt öðru tónlistarfólki eins og GRÓU, K.ólu og Skoffíni. Hún var upprunalega tveggja manna hljómsveit, stofnuð af Bjarna Daníel Þorvaldssyni og Sigurpáli Viggó Snorrasyni, en þeir hóuðu svo í fleiri til að spila á tónleikum.

„Vð erum að breyta til núna. Frá upphafi var hugmyndin að þetta væri dúó en núna var tekin ákvörðun um að breyta því og við erum orðin fimm manna hljómsveit. Tilkynnist það hér með,“ segir Bjarni Daníel. Hann og Sigurpáll byrjuðu með hljómsveitina Váru í grunnskóla og tóku þátt í Músíktilraunum. „Við ákváðum svo að fara að semja aðeins poppaðri tónlist og upp úr því spratt Bagdad Brothers. Undir miklum áhrifum frá klassísku íslensku poppi og Bítlunum.“

Mynd: RÚV / RÚV
Bagdad Brothers – Burt með sumrinu

Hljómsveitin fer til Ísafjarðar og kemur fram á Aldrei fór ég suður um páskana en hyggur svo á frekari landvinninga í sumar til Bandaríkjanna og Kanada. „Við erum að skipuleggja túr og það er á lokasnúningnum. Við erum ennþá í smá vandræðum með að fjármagna það en erum að fara að setja í gang hópfjármögnun.“ Þá ætlar hljómsveitin að halda fjáröflunartónleika í R6013, og skunda svo niður á Húrra og þeyta skífum.

Mynd: RÚV / RÚV
Bagdad Brothers – Pepperónílagið

R6013 er tónleikastaður sem trommari Bagdad Brothers, Ægir Sindri, rekur í kjallaranum heima hjá sér á Ingólfsstræti, þar er engum meinaður aðgangur en frjáls framlög vel þegin. „Þetta hefur haft mjög góð áhrif á grasrótarsenuna.“

En er einhver grasrótarsena í Reykjavík, er þetta ekki allt komið í Gísla Martein um leið? „Ég held það hafi enginn frá Post-dreifingu komið í Gísla Martein ennþá, geturðu plöggað okkur í Vikuna?“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Bjartasta vonin í bransanum 2019

Tónlist

Þetta tiltekna partí kveikti ekki í mér

Tónlist

Frá Bítlum og Brunaliði til Bagdad

Tónlist

Auður, GDRN og fleiri hljóta Kraumsverðlaun