Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Getur valdið stærsta berghlaupi síðari tíma

27.10.2018 - 22:27
Stór sprunga hefur myndast í Svínafellsheiði sem valdið getur stærsta berghlaupi síðari tíma. Unnið er að áhættumati fyrir íbúa á svæðinu. Jarðfræðingur segir að ný tegund náttúruvár, berghlaup sem orðið getur í kjölfar hlýnunar, sé raunveruleg hætta.

Vísindamenn hjá Háskóla Íslands og Veðurstofunni rannsaka nú nýlega sprungu í Svínafellsheiði fyrir ofan Svínafellsjökul. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur hefur haft umsjón með mælingum á svæðinu frá 2016 og sýna þær að sprungan er um 1,7 kílómetrar að lengd og hefur gliðnað um 1,3 sentímetra á ári. Daniel Ben-Yehosua hefur unnið þrívíddarmyndbönd úr drónamyndböndum af sprungunni sem sýna vel hvernig stór hluti bergsins og hlíðarinnar í heiðinni fyrir ofan jökulinn virðist vera að losna úr fjallinu.

„Þetta er náttúrulega ógn sem er kannski tiltölulega ný af nálinni en allavegana við höfum ekki verið að horfa mikið í þessar áttir,“ segir Þorsteinn. „Ég held að það sé alveg full ástæða til að taka þetta mjög alvarlega, að fylgjast með, rannsaka þær breytingar sem eru að gerast í fjalllendi á Íslandi, ekki bara í kringum jöklana heldur líka bara víðs vegar, við erum að sjá skriður sem hafa fallið og við teljum í beinu framhaldi af veðurfarsbreytingum, hlýnun.“ 

Berghlaup í Svínafellsheiði yrði stærsta berghlaup síðari tíma. Undanfarna hálfa öld hafa tvö stór berghlaup fallið á jökla, 1967 á Steinsholtsjökul sem olli skyndiflóði úr jökullóninu þar, og minna berghlaup sem féll á Morsárjökul 2007. Berghlaupið á Svínafellsjökul gæti orðið fjórfalt stærra en á Steinholtsjökul, um 60 milljónir rúmmetra. Til að setja það í samhengi er það um áttfalt rúmmál fjallsins Keilis. Almannavarnir héldu nýlega fund með íbúum á svæðinu þar sem yfirvofandi berghlaup var meðal annars kynnt og það áhættumat sem unnið verður eftir að sviðsmyndagerð er lokið. Anna María Ragnarsdóttir eigandi Hótels Skaftafells segir íbúa lítið spá í hættuna. „Þetta er jú jú stórt og mikið berghlaup en það kannski fellur ekki fyrr en eftir fimmtíu ár, kannski lengra, við vitum ekkert um það og það er ómögulegt að láta þetta hafa áhrif á sitt daglega líf. Ef við ætluðum að láta þetta stjórna okkar daglega lífi þá höfum við alltaf val, þá getum við alltaf flutt í burtu, en við gerum það ekki því þetta hefur ekki þau áhrif á okkur að við teljum ástæðu til þess. Það eru alls staðar hættur, alveg sama hvort þarna eða bara víða annars staðar.“

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir