Getur tröllskessa verið kynferðisleg?

Mynd: RÚV / RÚV

Getur tröllskessa verið kynferðisleg?

18.06.2018 - 14:03
Ljóðahópurinn Svikaskáld gefur út aðra ljóðabók sína á morgun, 19. júní. Bókin heitir Ég er fagnaðarsöngur. Í henni er meðal annars fjallað um kynferðislegar tröllskessur og aðrar konur sem þykja taka pláss.

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir er ein af Svikaskáldunum sem auk hennar eru þær Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir. Stelpurnar kynntust þegar þær lögðu stund á ritlist í Háskóla Íslands. Ragnheiður Harpa segir að þær hafi allar þjáðst af fullkomnunaráráttu og dregið það að gefa eitthvað út sjálfar.

Þá kviknaði sú hugmynd að fara í bústað og skrifa allar saman. Sú ferð varð kveikjan að fyrstu bók þeirra, Ég er ekki að rétta upp hönd.

Bókin Ég er fagnaðarsöngur varð til í vikufríi í Frakklandi þar sem stelpurnar unnu hver og ein að sínum ljóðum en lásu líka upp hver fyrir aðra og ræddu mikið saman til þess að mynda þráð í bókinni.

Ragnheiður segir að það sé vissulega kvenlægur undirtónn í bókinni en hann hafi verið meiri í fyrstu bókinni. Það sé hins vegar engin tilviljun að bókin komi út 19. júní, á sjálfan kvenréttindadaginn. 

Ragnheiður Harpa var gestur í Núllinu en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.