Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Getur tekið gæsluna 4 daga að komast á staðinn

05.04.2017 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Ekkert land getur brugðist við sjávarháska skemmtiferðaskipa á norðurslóðum á eigin spýtur. Það getur tekið allt að fjóra daga fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar að komast á vettvang slyss og því mikilvægt að virkja nálæg veiði- og farþegaskip.

 

Umferð skemmtiferðaskipa á norðurslóðum hefur vaxið ört á undanförnum árum. Þessar siglingar eru alls ekki hættulausar og miklar fjarlægðir þýða að leit og björgun er flóknari og tímafrekari en víða annars staðar. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar segir mikilvægt að yfirvöld, útgerðir og allir þeir sem sinna leit og björgun séu vel undir það búnir að bregðast við hættuástandi á svæðinu. „Þetta er sjálfsagt eitt erfiðasta svæði í heimi. Hér erum við að eiga við gríðarlegar vegalengdir og gríðarlega erfið veðurskilyrði,“ segir Georg. Hér sé mesta fjarlægð milli björgunarstöðva í heiminum. „Við erum ekki alveg nógu vel búin hér á Íslandi, við eigum aðeins eitt öflugt varðskip og það getur verið statt langt frá vettvangi, þannig að við gætum verið að tala um allt að fjóra sólarhringa.“ Þess vegna sé mikilvægt að hafa skýra yfirsýn yfir skipaumferð á svæðinu. „Þannig að hægt sé að beina einhverjum skipum, enhverri hjálp, einhverri aðstoð á sem allra skemmstum tíma á vettvang.“

Samstarf ríkja nauðsynlegt

Landhelgisgæslan, Samtök útgerða skemmtiferðaskipa á norðurslóðum og leitar- og björgunarmiðstöðin í Norður-Noregi halda í dag og á morgun viðbragðsæfingu vegna umferðar skemmtiferðaskipa. Þar verður líkt eftir alvarlegu sjóslysi. Markmiðið er að styrkja samstarf, auka þekkingu og upplýsingamiðlun þátttakendanna með áherslu á björgun farþega af farþegaskipum á norðurslóðum. „Það er hægt að segja að við séum ekki nægjanlega vel í stakk búin og það er í raun enginn. Það getur ekkert eitt ríki borið ábyrgð á þessu eða séð um það sem kann að geta gerst þegar um er að ræða fleiri hundruð manns um borð í einu skipi sem lendir í vandræðum,“ segir Georg.