Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Getur séð sjálfa sig í andliti Elinu

Mynd: Elina Brotherus / Listasafn Íslands

Getur séð sjálfa sig í andliti Elinu

16.02.2018 - 15:02

Höfundar

„Maður getur horft á hennar líkama og andlit, en séð í raun og veru sjálfan sig,“ segir Birta Guðjónsdóttir um verk finnsku listakonunnar Elinu Brotherus. Birta er sýningarstjóri sýningarinnar Leikreglur sem opnar í Listasafni Íslands í kvöld.

„Ég heillaðist mjög snemma af verkunum hennar og ég held ég sé ennþá að heillast af sömu hlutunum. Hún snertir einhvern melankólískan streng í manni, þar er listin svo mikilvæg því hún er mögulega það eina sem nær að snerta þessa strengi. Og á einhvern furðulegan hátt hefur hún líka náð þessari tengingu að maður getur horft á hennar líkama og andlit, en séð í raun og veru sjálfan sig,“ segir Birta Guðjónsdóttir um verk Elinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Elina Brotherus - Listasafn Íslands

Brotherus er einn þekktasti ljósmyndari samtímans, er hluti af hinum svokallaða Helsinki hóp, og sýnir verk sín vítt og breitt um heiminn. Birta segir það mikinn feng að fá nýjustu verkin hennar til sýnis hér á landi, en öll verkin á sýningunni er tekin á síðastliðnum tveimur árum. Verkin eru ljóðræn og einkennast af marglaga frásögnum, í mörgum þeirra vísar hún í listasöguna, ekki síst í leikgleði Fluxus-hreyfingarinnar. Brotherus fæst að mestu við gerð sjálfsmynda og landslagsmynda og segir Birta nálægð listakonunnar vera sterka í þeim öllum. Hún kanni  persónulegar en sammannlegar upplifanir, sjálfsmyndina, tímahugtakið, nærveru og fjarveru ástarinnar.

Sýningin Leikreglur opnar í Listasafni Íslands klukkan 20:00 í kvöld. Halla Harðardóttir ræddi við sýningarstjórann Birtu Guðjónsdóttur í Víðsjá.