Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Getur neitað að skrifa undir hvaða lög sem er

07.03.2016 - 17:07
Mynd: RUV / RUV
Forsetaembættið hefur verið í ákveðinni óvissu eftir að Ólafur Ragnar Grímsson neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin 2004. Þetta segir Guðmundur Hálfdánarson, forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Forsetinn hafi heimild til að neita að skrifa undir hvaða lög sem er. Nýr forseti með t.d.10 prósent atkvæða gæti þess vegna sett landið í uppnám.

Enn hefur enginn skilað inn framboði til forseta þótt nokkrir hafi lýst því yfir að þeir stefni að því að bjóða sig fram. Það er reyndar ekki fyrr en 21. maí sem frambjóðendur þurfa að vera tilbúnir með  meðmælendur og fullgilt framboð. En umræðan um nýjan forseta hefur að nokkru leyti snúist um að við fáum annaðhvort pólitískan forseta eða forseta sem sameiningartákn þjóðarinnar. Guðmundur Hálfdánarson, forseti hugvísindasviðs Háskóla Íslands, er einn þeirra sem hefur haldið þessu fram. En er það ekki skrýtin staða að forsetaframbjóðendur geti í raun ákveðið sjálfir hvernig vinnubrögðum þeir hyggjast beita ef þeir ná kjöri.

„Það er að vissu leyti afleiðingin af því hvernig embættið hefur breyst á undanförnum árum í meðförum Ólafs Ragnars Grímssonar. Allt frá því að hann neitaði að skrifa undir lög um fjölmiðla 2004 þá hefur þetta embætti verið í ákveðinni óvissu og þessi óvissa hefur enn ekki verið leyst. Þannig að það er mín  tilfinning að það verði erfitt að bjóða sig fram öðru vísi en að halda þeim möguleika opnum að vísa málum til þjóðarinnar. Þetta verður ákveðin jafnvægislist að reyna að finna  jafnvægið milli þess að vera sameiningartákn og á einhvern hátt pólitískur," segir Guðmundur.  

Getur leitt til alvarlegra hluta

Eftir 20 ára setu Ólafs Ragnars og miklar umræður um valdsvið forseta hefur engu, sem lýtur að forsetanum í stjórnarskránni, verið breytt. En er það alvarlegt að ekkert hafi verið gert í ljósi þess að margt er óljóst í kringum málskotsrétt forseta?

„Þetta er alvarlegt vegna þess að það getur leitt til alvarlegra hluta. Samkvæmt stjórnarskránni hefur forsetinn heimild til að neita að skrifa undir hvaða lög sem er. Við getum rétt ímyndað okkur hvað það myndi skapa mikla óvissu í samfélagi ef forsetar færu að beita þessu af ákveðinni léttúð. Færu að skrifa undir lög sem þeim líkaði ekki. Eða þá að þeir neituðu að skrifa undir fjárlög," segir Guðmundur.

Vanhugsað ákvæði
Guðmundur bendir á eitt óvissuatriði sem sýni hvað þetta sé vanhugsað ákvæði. Menn viti ekki hvernig eigi að bregðast við þegar þessu ákvæði er beitt.  

„Hver eiga viðbrögðin að vera  ef mál fara í þjóðaratkvæðagreiðslu? Ef forsetinn „tapar" að lögin verða samþykkt. Hvernig á hann að bregðast við? Er umboð hans rýrara en áður? Í Icesave kosningunum varð ríkisstjórnin undir en sat áfram. Er það eðlilegt? Er ekki eðlilegt að þetta sé ákveðið vantraust þjóðarinnar á þeirri ríkisstjórn eða alþingi sem leggur fram þetta frumvarp?" segir Guðmundur.

Forsetinn valdalítill
Ólafur Ragnar Grímsson var fyrsti forsetinn sem neitaði að skrifa undir lög eða synjaði lögum staðfestingar. Vigdís Finnbogadóttir dró það í sólarhring að skrifa undir lög um gerðardóm til að stöðva verkfall flugfreyja. Henni hugnaðist ekki að skrifa undir lögin á kvennafrídegi en gerði það svo daginn eftir.  Kristján Eldjárn var í útvarpsviðtali spurður að því 1976 hvort forsetinn væri valdalaus toppfígúra eins og Helgi H. Jónsson fréttamaður orðaði það.

Já, þetta er kannski ekki fallegt orð, toppfígúra, en það er satt að það heyrist. Það er ekkert leyndarmál hvernig stöðu forseta er háttað í stjórnlagakerfinu. Það er ákveðið í stjórnarskránni og það er öllum kunnugt að íslenskur forseti er samkvæmt þeim stjórnlögum valdalítill. Og valdaminni heldur en í fljótu bragði mundi kannski virðast eftir stjórnarskránni. Hann felur ráðherrum að fara með vald sitt og það er framkvæmt á þeirra ábyrgð svo það er rétt að hann er valdalítill. Þetta er mjög svipað og staða konunganna á Norðurlöndum. Kristján Eldjárn.

Ef málskotsréttinum yrði beitt af léttúð
Það ríkir óvissa um valdsvið forseta þó að embættið hafi verið við lýði í bráðum 72 ár. Menn eru sammála um að Ólafur Ragnar hafi slegið nýjan tón og svo gæti farið að við fengjum nýjan forseta sem gæti slegið nýja og áður óþekkta tóna. Guðmundur bendir á að Ólafur Ragnar hafi ekki beitt málskotsréttinum af léttúð. Hins vegar gætum við lent í erfiðleikum ef til valda kæmist forseti sem teldi sig hafa fullan rétt til að beita þessu í tíma og ótíma.

„Þá væri þjóðfélagið komið í ákveðið uppnám. Við skulum vona að það verði ekki en það getur alveg gerst. Það verður gengið að forsetaframbjóðendum og þeir spurðir að ýmsum hlutum í kosningabaráttunni. En þeir geta gert eitt og sagt annað. Og síðan geta menn verið kosnir inn í þetta embætti með tiltölulega litlu fylgi. Forseti með 10 prósent atkvæða gæti þess vegna sett þjóðfélagið í uppnám," segir Guðmundur Hálfdánarson.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV