Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Getur mynd um hælisleitendur breytt heiminum?

Mynd:  / 

Getur mynd um hælisleitendur breytt heiminum?

24.03.2019 - 13:00

Höfundar

Líbanska kvikmyndin Capernaum er frábært listaverk og mögnuð kvikmynd um nöturlegan raunveruleika milljóna flóttamanna og barna, að mati kvikmyndarýnis Lestarinnar.

Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Líbanska kvikmyndin Capernaum, eða Óreiða á íslensku, var frumsýnd á Cannes í fyrra og keppti um Gullpálmann en hlaut verðlaun dómnefndar. Capernaum á margt sameiginleg með hinni japönsku Shoplifters sem hlaut Gullpálmann, en í báðum myndum eru börn í burðarhlutverkum og myndirnar taka á fátækt og harðri lífsbaráttu á áhrifamikinn, á köflum húmorískan en líka nærgætinn hátt. Báðar myndir voru einnig tilnefndar til Óskarsverðlauna í flokki bestu kvikmynda á erlendu tungumáli. 

Capernaum er leikstýrt af Nadine Labaki sem er þekkt sem leikkona og leikstjóri í Líbanon og hefur, með velgengni Capernaum og fyrri verkum, haslað sér völl á alþjóðavettvangi sem mikilvægur leikstjóri og rödd fjölþjóðlegs femínisma, eða transnational-feminsim, í kvikyndagerð. Aðalhlutverk myndarinnar er í höndum hins unga Zain Al Rafeea sem var 12 ára þegar myndin var tekin upp. Zain er sýrlenskur flóttamaður sem flúði ásamt fjölskyldu sinni til Líbanon í kjölfar stríðsátakanna í Sýrlandi. 

Capernaum fjallar um hinn 12 ára gamla Zain El Hajj, persónan er nefnd í höfuðið á aðalleikaranum, og gerist í fátækrahverfum Beirút. Myndin gerist í afturliti og hefst í réttarsal þar sem Zain mætir foreldrum sínum sem hann hefur höfðað mál gegn fyrir vanrækslu. Zain situr sjálfur í fangelsi fyrir að hafa framið alvarlegan glæp. Myndin segir sögu hans allt frá erfiðu lífi hans og systkinanna á götum Beirútborgar þar sem þau sinna margvíslegum og misheiðarlegum störfum til þess að draga fram lífið og ekki fá þau gott atlæti heima fyrir. Þegar ástkær systir Zain, Sahar, er send að heiman 11 ára gömul til þess að giftast eldri manni í hverfinu, þvert gegn vilja sínum og bróður síns, strýkur Zain að heiman.

Hann eltir sérkennilegan eldri mann, sem hann hittir í strætó, í skemmtigarð þar sem hann hefst við þar til hann hittir hina eþíópísku Rahil sem vinnur þar við þrif. Rahil er ekki með dvalarleyfi í Líbanon og á ungabarnið Yonas, sem hún reynir að fela eftir fremsta megni. Hún tekur hinn umkomulausa Zain undir verndarvæng sinn og Zain í staðinn passar Yonas, allt leikur í lyndi þar til Rahil er handtekin fyrir að vera ólöglegur innflytjandi. Þá reynir á öll bjargráð Zain, en hann þarf að hugsa bæði um sjálfan sig og ungabarnið Yonas og reyna að finna móður hans.

Mynd með færslu
 Mynd:

Capernaum er þannig marglaga saga sem er í senn beitt ádeila á líbanskt samfélag, kynbundið ofbeldi, fátækt, barnavanrækslu, misnotkun á erlendu starfsfólki, aðbúnaði flóttafólks, kerfisbundna illsku og þau margþættu, samverkandi öfl alþjóðlegra stjórnmála og annarra valdastrúktúra sem knýja áfram vítahring ofbeldis og þjáningar sem birtist í þeim fjölda fólks sem lifir á flótta í heiminum í dag. Gildir einu hvort fólk flýr vegna stríðsátaka, slæms efnhags eða loftslagsbreytinga.

Hinn ungi leikari Zain Al Rafeea er alveg hreint ótrúlegur í hlutverki sínu og honum tekst að bera uppi heila kvikmynd, sem að er smávægilegt verkefni fyrir barn sem hefur þegar þurft að flýja heimaland sitt vegna stíðsátaka. Túlkun hans og leikur ber vitni um mikinn þroska, þroska sem að 12 ára börn eiga í raun og veru ekki að búa yfir. Capernaum er ekki auðveld kvikmynd að horfa á en hún endurspeglar þann nöturlega sannleika, að þær aðstæður sem við sjáum Yonas og Zain í, eru daglegt brauð milljóna barna. Allur leikarahópurinn skilar í raun magnaðri frammistöðu. Kaldlyndi foreldranna, ofbeldið og vanræksluna, má rekja til harðrar lífsbaráttu þeirra en afleiðingar stríðsátaka og fátæktar eru skelfilegar og margþættar. Yordanos Shiferaw leikur Rahil sem gengur undir hinu falska nafni Tigest og hún skilar einnig áhrifamikilli frammistöðu. Hún og Zain finna tímabundið bandamann hvort í öðru, upplifa örstutt augnablik af manngæsku, Zain yfirgefur heldur aldrei ungabarnið og sýnir að hann er betri umönnunaraðli en hans eigin foreldrar.

Líbanon á sér flókna sögu sem er lituð af stríðsátökum en landið hefur líka allt frá hernámi Palestínu verið viðkomustaður og/eða endastöð fjölda flóttafólks. Líbanon eitt og sér hefur tekið á móti einni og hálfri milljón sýrlenskra flóttamanna frá upphafi stríðsátakanna árið 2011, og þar á meðal Zain og fjölskyldu hans.

Mynd með færslu
 Mynd:

Undanfarna daga hafa hælisleitendur á Íslandi staðið fyrir mótmælum á Austurvelli við Alþingishúsið og krafist þess að fá sanngjarna málsmeðferð og að gætt sé að grundvallarmannréttindum þeirra. Þegar ég opnaði Facebook í morgun blasti við mér frétt Kvennablaðsins um að búið væri að vísa einum hælisleitanda og mótmælanda úr landi í skjóli nætur, hinum tvítuga Aimal frá Afganistan sem hefur verið á flótta frá 14 ára aldri. Mótmælin hafa vakið mikla athygli í þjóðfélaginu, ekki einna síst fyrir þær sakir að kommentakerfi netmiðla hafa logað af rasisma, heift og hatursorðræðu í garð hælisleitenda.

Geta kvikmyndir, eða skáldskapur á annað borð breytt heiminum? Eftir frumsýningu Capernaum á Cannes stóðu áhorfendur upp úr sætum sínum og hylltu myndina í 15 mínútur. Myndin hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og fengið viðurkenningar á stærstu kvikmyndahátíðum Vesturlanda. Þetta er vissulega frábært listaverk, sem uppfyllir öll skilyrði sem menntaðir og kröfuharðir áhorfendur setja þeim kvikmyndaverkum sem eiga.

Nokkur hundruð manns hafa verið að mæta á mótmælin og sýnt samstöðu með hælisleitendum. Ætli það myndi breyta einhverju ef að allir starfsmenn Alþingis og rasistar kommentakerfanna væru ferjaðir í Bíó Paradís og skyldaðir til þess að horfa á Capernaum? Ég læt mig dreyma en hvet ykkur sem flest, kæru hlustendur, til þess að missa ekki af þessari mögnuðu kvikmynd.